Eftir Silfrið: Hverjir standa með þjóðinni?

Einfeldningurinn í sjálfum mér kemst í mikinn vanda tvisvar til þrisvar á dag um þessar mundir. Það er þegar hann reynir að mynda sér skoðun á þjóðmálunum byggða á orðum hinna ýmsu álitsgjafa. Já, svo og æðstu manna stjórnmálanna. Það er eitthvað feikilega dularfullt við alla ræðu valdsmanna. Ekkert sagt hreint og ekkert klárt. Manni finnst þeir séu að segja ósatt og sá sem segir ósatt þarf væntanlega að fela eitthvað.

Eftir Silfrið í dag hrundu ýmsar fyrri skoðanir sem einfeldningurinn hélt að væru nokkurn veginn nothæfar til að byggja á. En bara eins og hviss, ruku þær út í bláinn. Og núna finnst mér að almenningur sé pólitískt munaðarlaus og engin vonarglæta framundan. Bankarnir og braskararnir og stjórnmálaflokkarnir enn að gera það sama og þeir gerðu fyrir hrun.

Enn virðast líkur á að braskararnir njóti verndar stjórnsýslunnar. Af hverju ætli það sé? Á hún hagsmuni þar? Ekki hrífst ég af orðum Sullenbergers um að stofna lágvöruverðsverlsun. „Ef þjóðin stendur með mér,“ sagði hann. Það eru alveg sömu orð og Jóhannes í Bónus klifaði á um árabil: „Þjóðin stendur með okkur.“ Skyldi hann reikna með því í dag?

Það hefði komið sér betur að þessir menn stæðu með þjóðinni. Nú virðist sem þeir hafi einungis staðið með sjálfum sér og hafi gert öll árin. Þrátt fyrir fagurgalann. Og því miður er ekki annað að heyra á stjórnmálamönnunum en að þeir standi fyrst og fremst með fáum. Og hvað er þá til bragðs að taka fyrir okkur hin? Sennilega alls ekki neitt.

Það er minnisstætt þegar Davíð Oddsson um árið tók út peninga í Kaupþingi til að sína andúð sína á bankanum. En hvert færði hann þá? Í einhvern annan banka væntanlega. Voru peningarnir betur settir þar í ljósi atburða?

Ljóta endemisþvælan sem þetta alltsaman er. Og þess vegna spyr einfeldningurinn einu sinni enn: Kosningar? Hverju myndu þær breyta?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.