When Texans came to dinner

Hún kom frá Texas í síðustu viku. Ég hef ekki séð hana í tuttugu ár. Birna Björk. Systurdóttir mín. Sonur hennar, Kristinn, var með henni. Tvítugur myndarmaður. Hann er fæddur og uppalinn í Texas. Belton.

Bróðir Birnu, Brynjar og kona hans Olga, tóku á móti þeim og ólu önn fyrir þeim alla heimsóknina. Við buðum Texasbúunum ásamt gestgjöfum þeirra í mat og spjall og frændsemistengsl eitt kvöldið. Gunnbjörgu einnig. Hún er tvítyngd.

Ég velti vöngum yfir matseðlinum alllengi. Hvernig tekur maður á móti Texasbúum? Eigum við að hafa það þjóðlegt svo sem eins og hangikjöt með öllu? Það gerði amma Gunn alltaf þegar gestir komu. Hangikjöt með öllu. Eða átti ég að hafa saltkjöt og baunir? Það klikkar eiginlega aldrei. Svo komu bakþankarnir.

Auðvitað hafa allir hinir frændur þeirra gefið þeim þessa rammíslensku máltíðir. Að sjálfsögðu. Og nú jókst vandi minn.Hvað með fisk? Já, auðvitað. Icelandic fish gourmet. Og niðurstaðan varð fiskisúpa með sýnishornum af öllu góðgæti innan landhelginnar. Svo hófst ég handa.

Í forrétt; heimabakað rúgbrauð, smjör, marineruð síld, kryddsíld, heimalöguð laxakæfa.
Í aðalrétt: Fiskisúpa með laxi, humri, rækjum, kræklingi, rauðsprettu, hvítvíni og rjóma og heimabakaðar hveitibollur með. Smjör.
Í eftirrétt: Klessa. Brún pecanhnetusúkkulaðieggjaogpúðursykurterta og ís. Kaffi.

Það er ekkert auðvelt að ákveða hvað gefa skal Texasbúum sem manni skilst að nærist á tyllidögum á 500 gramma nautasteikum eða kalkún og borði hamborgara og franskar á virkum dögum.Enda fór það svo. Frænka mín er grænmetisæta. Hún snerti ekki súpuna. Henni líkaði Klessan þó vel. Sonur hennar borðaði allt og þáði ábót af súpunni. Dugnaðarstrákur.

En kvöldið var kyrrlátt og fagurt og samræður gengu vel. Einn og einn ættarkjækur birtist og gladdi fólk. Systir mín, Sigurbjörg Ágústsdóttir Dix, húsmóðir í Belton, Texas, fær alúðarkveðjur frá okkur hérna á hjarninu.

(Ég velti þvi svo fyrir mér hvort frænka mín horist ekki á meðan hún dvelur hér. Frétti að hún var boðin í saltkjöt og baunir kvöldið eftir.) :-))))

2 svör við “When Texans came to dinner”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.