Hvaða kosti yrði þjóðinni boðið að kjósa um?

Það er verulega hrollvekjandi að lesa og heyra fréttir af því að sama fólk og kom þjóðinni til andskotans skuli enn sitja við völdin í bönkunum þegar stóru lánin taka að berast til þjóðarinnar. Ég finn ekki betur en að hjartað í mér sleppi einu og einu slagi úr við lesturinn.

Hvernig í ósköpunum má það vera að sama fólkið skuli vera valið til að vinna með lánin, fólkið sem er meira og minna tengt öllum mafíósa hákörlunum og hefur unnið með þeim um langt árabil? Jafnvel verið hugmyndafræðingar að ýmsum drullupollunum. Getur verið að þeir sem völdu það til starfa , þ.e.ríkisstjórnin, sé ennþá einskonar varnaraðili hákarlana?

Um alllangt árabil hef ég haft þá skoðun að ósóminn hafi fengið að þroskast í skjóli og með vilja stjórnmálamanna allt frá því að bönkunum var úthlutað til ástvina þeirra. Og klárt er að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn bera þá ábyrgð. Að þeir telji sig enn verða að styðja við bakið á þeim er aftur á móti óskiljanlegt og óheiðarlegt.

Þess vegna er sjálfsögð krafa að kosið verði til Alþingis strax. En það mun ekki gerast nema Samfylkingin slíti stjórnarsamstarfinu og á því eru ekki miklar líkur. Samfylkingin hefur ekki staðist væntingar margra sem vonuðu á hana fremur en aðrir stjórnmálaflokkar væntingar síns fólks.

En segjum nú svo að kosið verði fljótlega. Til dæmis í janúar. Reyndar verður þá búið að ráðstafa flestum lánunum og koma þeim í farvegi sem leiða langt inn í framtíðina. En ef kosið yrði þá, hvað býðst okkur þá að kjósa um? Það heyrast hróp og köll og púú og eggjum er kastað. Aðrir hrópa í síbylju: „Burt með spillinguna.“

En ég leyfi mér að spyrja: Hvaða kosti verður þjóðinni boðið að kjósa um? Það væri ánægjulegt að heyra hvað allir þessir hrópendur hafa í huga þar um. Varla er ætlast til að þeir sem kasta eggjum í Alþingishúsið og útata það með klósettpappír teljist vænlegur kostur til að setjast þar inn. Né þeir sem hvetja þá til dáða.

Þess vegna finnst mér kominn tími til að kynnt verði fyrir mér og mínum líkum hverjir það eru sem muni bjóða sig fram og telji sig geta gert betur en nú er gert.

Eitt andsvar við „Hvaða kosti yrði þjóðinni boðið að kjósa um?“

  1. Já Óli það er örugglega ekki einfalt að koma þjóðarskútunni á rétt ról eftir þetta allt. Ekki hef ég mikið traust á þeim sem eru nú á þingi flestum. Held að flokkakerfið hér sé gengið sér til húðar. Best væri ef hægt væri að ráða embættismenn og ráðherra eftir þekkingu og menntun á hverjum málaflokk, en ekki eftir flokks klíkuskap eins og verið hefur. Allavega þarf að skipta miklu út finnst mér. Öll svona óvissa er slæm fyrir almenning. Kær kveðja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.