Olíufurstinn og endurnar á Tjörninni

Það fer nú þannig fyrir mér á þessum dögum að ég get ekki snúið mér nógu hratt í hringi til að elta allar staðhæfingar sem menn láta frá sér fara um ástandið á landinu um þessar mundir. Það er ekki eins og talað sé einfaldlega í austur og vestur, heldur er einnig þvaðrað í allar aðrar áttir sem og upp og niður.

Þegar ég svo sest íbygginn á svipinn við Horngluggann og frú Ásta kemur með sinn kaffibolla og spyr, eftir nýjasta útspil síðasta ræðumanns í útvarpi eða dagblaði eða sjónvarpi: „Hvað sýnist þér um það Óli?“ þá verður mér svarafátt. Það er nefnilega eitt að hafa skoðun fyrir sig, annað að útskýra hana með rökum fyrir öðrum. Og vandi að finna ræður sem hægt er að byggja á.

Eftir nokkurt hik og fáein andartök bregð ég á það ráð að svara eins og íslenski olíufurstinn um árið. Þá hafði orðið óútskýrð stórvaxin rýrnun á olíu og bensíni á Keflavíkurflugvelli og var málið í rannsókn. Furstinn mætti til yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglunni niður á Fríkirkjuveg, og þegar lögreglumaður spurði um veigamikið atriði, þá svaraði furstinn með því að segja að það væru um það bil áttatíu endur á tjörninni.

Ég svaraði frú Ástu blíðlega: „ Snjórinn er allur horfinn.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.