Hagalagðar

Afi minn hét Steinn. Hann var Þórðarson. Afi bjó á Kirkjulæk. Þegar ég var lítill drengur var ég stundum í sveit hjá afa og ömmu. Amma hét Sigurbjörg. Afi kallaði hana alltaf Siggu. Yfir sauðburðinn fékk ég stundum að fara með afa til kinda. Hann var með staf og náði nýfæddu lömbunum með því að krækja fyrir hálsinn á þeim. Svo markaði hann þau.

Við fórum alla leið upp í Lútenda. Þar voru beitarhús. Afi hvatti mig til að tína hagalagða. Hann skyldi leggja þá inn í kaupfélagið á mínu nafni. Stundum fann ég svo marga að allir vasar voru úttroðnir. Suma daga hafði ég lítinn pokaskjatta með og tíndi í hann. Afi hrósaði mér þegar mikið var í pokanum. Þegar við komum heim setti ég ullarlagðana í alvörupoka. Einn var merktur mér.

Um það bil sem sláttur var að hefjast og afi útbjó amboðin, orf, ljái og hrífur, kom hann einn daginn úr kaupstað og rétti mér nýjan vasahníf. Fiskekniv. Hann var með hjöltu úr tré. Þá var ég nú aldeilis ánægður með lífið. Og rogginn.

Blaðið á hnífnum var svo stíft fyrst í stað að ég átti erfitt með að opna hnífinn. En oftast tókst það. Þá tálgaði ég spýtur og skar út stafi í girðingastaura. Líka gæsafjaðrir eins og afi gerði. Hann yddaði þær og notaði fyrir tannstöngla. Hann var alltaf með eina eða tvær í vestisvasa.

Mér þótti afar vænt um afa þegar ég fékk að elta hann um allt. Ég kann margar sögur af því. En þetta verður að nægja í dag. Á degi tungunnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.