Ó, Víóletta, á Rás eitt

Stundum í gamla daga, ég meina gamla daga, þegar Pétur Pétursson var þulur á einu ljósvakarásinni og maður var ungur og hlakkaði til dagsins sem fór í hönd og Pétur spilaði svona lag eins og Víólettu, þá lyftist skapið í manni og maður fór á einskonar vængjum út í strætó og í vinnuna. Og brosti framan í alla. Góðan dag.

Það var eins í morgun. Þulurinn á rás eitt spilaði lagið Ó, Víóletta, með Karlakór Selfoss, (vona að þetta sé rétt), og ég fann þessa gömlu tilfinningu vakna í brjóstinu og hló með sjálfum mér og við Ásta litum upp úr dagblöðunum og sögðum: Manstu? Ó, já, heldur betur. Og Jón Múli? Hvort ég man.

Svo brunuðum við Gústi austur í Hvolhrepp til að lagfæra leiði ömmu og Gumma og ferðin öll var góð og þægileg. Sólin var úti um allt og inni í okkur líka. Um allt. Svona morgnar eru svo góðir.

Mér finnst að rás eitt eigi að spila meira af svona laufléttri tónlist fyrir sjö fréttir á morgnanna. Það er nægur tími fyrir Gustav Mahler og önnur mikilmenni síðar um daginn þegar fólk er almennilega vaknað. Ég segi það satt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.