Annar og þriðji í ókomnu sumri

Maður þykist vera á leiðinni á móti vorinu. Á móti sumrinu. Það er mikið bráðlæti. En auðvitað eigum við öll minningar um kaldan dag, sumardaginn fyrsta. Stundum snjóaði og engin varð hissa á því.

Nú verður maður mest hissa á sjálfum sér að gleyma þessu sí og æ og aka út í sveit, léttur í skapi og raula fyrir munni sér í upphituðum bílnum: „Nú er sumar gleðjist gumar, / gaman er í dag…“

Sumardagurinn fyrsti var svo gullfallegur út um gluggana að við fengum okkur stuttan bíltúr eftir hádegið. Við Brúarás hittum við tvenn bændahjón, en þar stóð til að fagna sumri með kaffi, tertum og uppákomum. Frúrnar tvær, Bryndís í Kalmanstungu og Þuríður á Sámsstöðum, sem eru í stjórn kvenfélagsins, mættu fyrstar ásamt körlum sínum.

Krókus

Við tókum fólkið tali, enda eru konurnar náskyldar Ástu og kysstust af innileik. Ég þvaðraði eitthvað um sumarið við bændurna, en þeir höfðu hlustað á veðurfregnir og skutu mig niður, blíðlega þó: „Á hann ekki að kólna um helgina,“ sagði annar, „hann spáir nú kólnandi,“ sagði hinn. „Getur það verið?“ sagði ég.

Bjartsýnn

Annan sumardag komst hitinn í plús 12 gráður upp úr hádegi á hlaðinu í Litlatré. Gangandi í kringum kofann, (sem einhver kallaði skúr fyrr í mánuðinum) kom ég auga á krókusa sem voru jafn bjartsýnir og ég og teygðu sig upp úr dauðri jörðinni á móti sól. Það var heillandi sýn og mér fannst ég ekki svo grænn lengur.

Lokar að sér

Þriðji sumardagurinn, það er í dag, hófst með 0 gráðu hita klukkan sex árdegis, eða á ég að segja 0 gráðu kulda. Hvað um það. Súldin, sem fljótlega breyttist í snjó-fjúk, kom æðandi norðan úr landi og steypti sér suður af Síðufjallinu með vindhraða 14 metrum á sekúndu og byrgði útsýnið. Þá komu í ljós undraverðir eiginleikar náttúrunnar, krókusarnir lokuðu að sér.

Viðbrögð við kulda

Hestar í höm

En það var fleirum kalt en blómunum bláu og hvítu. Hrossahópur stóð í höm sunnanundir klettum í Reykholtsdal og ákvað ég, á flóttanum frá sumrinu sem eingöngu finnst á íslensku dagatali, að taka stóðið með mér heim. Hvar ég nú undirbý kjúklinginn, – sem til stóð að grilla í sveitinni, – undir að enda sem indverskur karrýréttur hérna á sjöundu hæðinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.