Hann blæs og blæs. Kallaður Kári

Einkenni þessara daga er vindur og regn. En fyrst og fremst vindur. Hann blæs og blæs. Kallaður Kári. Maður dregur alpahúfuna niður fyrir eyru á leiðinni á milli húsa. Svo hún ekki fjúki út í buskann. Týndi einni í fyrra á leiðinni úr bílnum inn í flugstöðina í Keflavík. Hún virtist ekki vilja með til Glasgow. Þeyttist vestur um haf. Með Kára.

Við Ásta fórum í sveitina eftir vinnu á föstudaginn var. Þá var allstíf suðvestan átt og regn. Umferð bíla talsverð þar til eftir Hvanneyrar afleggjara. Nokkrir karlar óku hægar en á áttatíu. Það ætti að sekta þá fyrir uppnámið sem þeir valda.

Vegir voru þurrir í Borgarfjarðarsveit eftir Hest. Tók að rökkva í Reykholtsdal. Logn í Litlatré og fimm stiga hiti. Suðaustan logn. Enda svæðið „inn til landsins“ eins og Veðurstofan orðar það.

En það var ekki logn í spánni. Og spáin rættist. Um miðja nótt snérist vindáttin í norðaustur. Það varð heiðskírt og tunglið fullt á austurhimninum. Ratljóst. Veðurstöðin í Litlatré sýndi NNA 13-16 m/s, hita – 9°C loftþrýsting 1023 m/b hækkandi. Þannig varð laugardagurinn. Vindstrengur allan daginn og frost. Ég setti ljósaseríu með nettlegum rauðum perum á grindverkið. Til jólanna. Fékk kuldaverk í fingurna. Blés í kaun.

Við fórum undir sæng um miðjan dag með bækurnar okkar. Eftir bolla af kakói. Ásta með Sögur úr Síðunni eftir Böðvar á Kirkjubóli. Kirkjuból blasir við austurglugganum. Sjálfur tók ég með mér tvær uppáhaldsbækur. Gamlar. Litlar. Til að kela við þær. Mér finnst gott að kela við bækur.

Ég strýk þær. Opna á uppáhaldsköflum og renni fingurgómunum niður eftir síðunum. Les málsgrein. Stansa við og hugsa til baka. Þetta eru Litli Rauður, sagan af Billy Buck og drengnum Jody, 10 ára, eftir John Steinbeck og Allir heimsins morgnar, sagan af herra Sainte Colombe gömbumeistara og Tregagröfinni, eftir Pascal Quignard. Og mér hlýnar um hjartaræturnar.

Ásta hlær í sínu rúmi við Böðvari.

Veðurstofan tók að vara við stormi á sunnudeginum. Þá hugsar maður til Hafnarfjalls og Kjalarness. Höfum farið þar um í 38 m/s í hviðum. Þá er maður ekki alveg viss um afdrif sín. Ákváðum að fara heim á leið fyrir hádegi á sunnudag. Vorum heppin. Kári mældist 50 m/s í hviðunum síðdegis. Það var eftir að við lentum heima. Þetta var góð helgi.

„Marin Marais kraup í dyragættinni.
Herra Sainte Colombe hallaði sér fram og sagði við þetta andlit:
„Hvers leitið þér, herra minn, í tónlistinni?“
„Ég leita iðrunar og grátstafa.“
Þá opnaði hann dyrnar upp á gátt og stóð skjálfandi á fætur. Hann tók herra Marais opnum örmum og bað hann að gera svo vel að koma inn.
Þeir byrjuðu á því að þegja.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.