Það var ákaflega ánægjulegt að hlýða á helstu sérfræðinga þjóðarinnar í málvísindum, sem og biblíufræðinga, ræða um nýju biblíuþýðinguna.
Reykjavíkur Akademían, Skálholtsskóli og tímaritið Glíman efndu til málþingsins sem stóð yfir föstudag og laugardag í Skálholti og var tengt degi íslenskrar tungu 16. október.
Margir sérfræðingar fluttu erindi, íslenskufræðingar, málfræðingar og sérfræðingar í Gamla og Nýjatestamentis fræðum. Voru það þau Guðrún Kvaran, Gottskálk Þór Jensson, Clarence E. Glad, Guðrún Þórhallsdóttir, Jón G. Friðjónsson, Jón Axel Harðarson og Kristinn Ólason. Í lokin stjórnaði Sigurður Pálsson pallborðsumræðum.
Augljóst er að ekki eru allir ánægðir með nýju þýðingu biblíunnar. Kváðu sumir mjög fast að orði þegar þeir lýstu óánægju sinni og sýndu með dæmum hvar þeim fannst illa hafa tekist til og hvernig betur hefði mátt gera. Urðu orðaskipti allsnörp í lok sumra fyrirlestranna og greinilegt að fólki var heitt í hamsi. Reyndar kom einnig fram að víða er nýja þýðingin betri en sú gamla.
Ekki ætla ég að leggja mat á skoðanir fyrirlesaranna. Til þess er of langt bil á milli þekkingar þeirra og fávísi minnar. En í heildina tekið undirstrikaðist sú skoðun mín að aldrei verður hægt að þýða biblíuna svo að öllum líki og aldrei mun takast að svara því hvað felst, nákvæmlega, í þeim orðum sem valin voru í frumtextana til að lýsa hugsunum höfunda þeirra, né því hvaða textar séu raunverulegir frumtextar.
En til gamans má geta þess að nokkrir þátttakendur voru sammála um að það væri söknuður að geldingnum í Postulasögunni 8. Geldingur er gott íslenskt orð yfir vanaðan mann og í gríska textanum segir: „[…] a man of Ethiopia, an eunuch of great authority under Candace queen of the Ethiopians […] .
Í Nýja testamenti á íslensku, frá 1866, segir í versi 27: […] Og sjá, etíópískur maður, geldíngur og stórhöfðingi hjá Kandase drottníngu í Etíópíu, sem settur var yfir allar hennar fjársjóðu, hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir, […] Og í versi 34: […] Geldíngurinn sagði við Filippus: […]
Svo hverfur geldingurinn og í staðinn segir í yngri þýðingum: […] Og sjá, þar var etíópskur maður, hirðmaður og höfðingi […].
Loks segir í nýju þýðingunni, 2007: […] Hann var háttsettur hirðmaður hjá drottningu Eþíópa, sem kallast Kandake, […].
Það væri fróðlegt að vita hvaða rökum menn beittu þegar þeir úthýstu geldingnum, þessu ágæta íslenska orði um svo ágætan embættismann. Og gildir það um fleiri orð að sjálfsögðu.
Af þessu dreg ég þá ályktun að nýja þýðingin hafi verið vönuð – klippt og skorin. Án þess að vita nokkuð um málið.