Í þessu rotna bæli… …syngur grasið…

„Brestir menningarsamfélags koma
skýrast í ljós í lífi lánleysingja
og utangarðsmanna.“

Doris Lessing velur tvær tilvitnanir framan við skáldsögu sína Grasið syngur.

Sú fyrri er úr Eyðilandinu eftir T.S.Eliot. Það er ekki út í bláinn að hún velur hana. Við lestur skáldsögunnar upplifir lesandinn vaxandi hrylling eftir því sem líður á. Aðalpersónan, Mary Turner, er á leið til helvítis svo til alla söguna. Í lokin er svo komið að morðið, sem á fyrstu blaðsíðum bókarinnar tekur á móti lesandanum, verður eina útgönguleið hennar.

Seinni tilvitnunin sem Lessing velur er eftir ókunnan höfund. Hún vísar til stöðu lánleysingja og utangarðsmanna í menningarsamfélögum. Slíkir eru til í sérhverri þjóð. Á Íslandi koma þeir oft við sögu í fjölmiðlum. Það sorglega við þá umfjöllun er að oftar virðast fjölmiðlamenn vera að slá sér upp með frásögnum af þeim. Eða þá að þeir eru að fylla upp í eyður. Sjaldnast greinir maður einlæga umhyggju eða samúð með lánleysingjunum.

Grípum niður í fyrsta kafla sögunnar:
„Löngu áður en morðið leiddi athyglina að Turner-hjónunum talaði fólk um þau í þeim hörkulega tóni sem tilfellur utangarðsmönnum, útlögum eða fólki í sjálfvalinni útlegð. Turner-hjónin vöktu andúð jafnvel þótt fæstir nágranna þeirra hefðu hitt þau, varla einu sinni séð þeim bregða fyrir. En hvað var það þá sem vakti þessa andúð? Einfaldlega það að þau héldu sig út af fyrir sig; það var nóg.“

Við lestur bókarinnar skynjar maður að utangarðsfólk býr við sömu viðhorf umheimsins á öllum tímum og í öllum þjóðum. Til að komast af kemur það sér upp varnarmúrum umhverfis vanmátt sinn og viðkvæmni, varnamúrum sem það kemst ekki út úr og menningarsamfélögin sem þau lifa í kjósa fremur auðveldari leiðina og kasta steinum.

Bókin er spennandi og ekki svo auðvelt að leggja hana frá sér ólokinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.