Sjaldan hef ég séð fallegri bók og betur unna. Augljóst er að útgefandinn hefur lagt metnað í að gera hana sem best úr garði. Það er mjög ánægjulegt að meðhöndla hana og lesa. Hún er viðmótshlý og elskuleg. Allt við útlit og smekkvísi er til fyrirmyndar. JPV útgáfa á hrós og heiður skilin fyrir framúrskarandi vandvirkni.
Fyrir mér er efni Biblíunnar orð mannelskandi anda. Auðvitað er þar af ýmsum hugsunum að taka. Hvernig ætti annað að vera þegar litið er til þess fjölda ára og kynslóða sem frásögur hennar spanna. En kjarni hennar er góðilmur kærleikans, smyrsl sem græða og hughreysta menn, konur og karla. Þeim flokkstjórum sem harðast láta smella í svipum sínum hefur yfirsést að elskan, kærleikurinn til náungans, á að vera efstur og umbera allt.
„Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
hættir hæðnisbendingum og rógi,
réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
og seður þann sem bágt á, […]
„If you let out thy soul to the hungry,..“ segir í einni enskri þýðingu. Í annarri segir: „If you pour yourself out for the hungry and satisfy the desire of the afflicted…“
Elskan hefur að sjálfsögðu ýmis híbýli, – eða réttara væri kannski að segja dýptir-. Biblían fjallar um þessar dýptir. Í flestum bókum hennar má greina litla hópa manna sem fengið höfðu að sjá lengra inn í hulda leyndardóma Orðsins og upplifðu við það reynslu, sem breytti viðhorfum þeirra og skilningi, sem þeir helguðu líf sitt eftir það. Í hverri kynslóð.
Margt nútímafólk telur það merki um vitsmuni að hallmæla Biblíunni. Oftar en ekki lætur hæst í þeim sem minnst hafa lesið í henni hvað þá leitað undir yfirborð textans. Menn segja jafnvel að hún sé ónýt. Það mundi varla teljast merki um mikla greind að fullyrða að læknavísindin séu ónýt af því að ekki hafi enn fundist aðferð til að lækna krabbamein í brisi.
Það er nú einu sinni svo að þegar allt um þrýtur í huga og sál einstaklings, þegar ávísuð lyf og hinar ýmsu meðferðir fagfólks ná ekki að leysa vandann og myrkrið hvolfir sér yfir og þúsundfaldar þjáninguna, og allar leiðir virðast lokaðar, þá er gott að vita til þess að til er vegur sem liggur til lausnar sem birtist eins og ljós í myrkrinu. Orð Guðs, Kristur, er þetta ljós. Hann útdeilir elsku, kærleika og umhyggju eins og þegar hellt er úr einu keri í annað og umvefur hvern þann sem til hans leitar. Og hann er einmitt staðsettur í Biblíunni. Orði Guðs. Þess vegna er Biblían blessuð bók.