Félagslegt konfekt

Tvennar réttir voru í Hvítársíðu á laugardaginn var. Fljótstunguréttir og Nesmelsréttir. Fólk flykkist að í alvöruréttir. Þannig er í kringum Fljótstunguréttir. Umferð á vegunum margfaldast. Svo eru minniháttarréttir. Nesmelsréttir teljast til þeirra. Þær eru einskonar innansveitarkrónika.

Ásta Tóta kom við hjá okkur í Litlatré á laugardag. Hún var á leið í Fljótstunguréttir. Með henni í ferð voru synir hennar, Eiríkur og Hákon, og Gunnbjörg frænka þeirra. Pistilshöfundur er langafi drengjanna. Það er dálítið óþjált hugtak fyrir tiltölulega ungan mann. Langafi. Hugga mig við langömmutitil frú Ástu. En hún er svo sorglega laus við alla komplexa í svona málum og það þýðir ekkert að reyna að erta hana. Hún brosir stolt.

Góðir gestir á leið í réttir

Við fórum í Nesmelsréttir. Hjónakornin. Okkar fólk þar er fjölskyldan á Sámsstöðum. Húsfreyjan Þuríður og Ásta eru bræðradætur, Guðmundar og Jóns Ásgeirs Brynjólfssona frá Hlöðutúni. Við plöntuðum okkur í Sámsstaðadilkinn.

Þuríður og Ásta

Þuríður og Ásta ræða heilsufar og önnur málefni sveitarinnar.
Dráttur

Ólafur bóndi dregur, Þuríður opnar leiðina, Anna skimar eftir réttum mörkum.

Ásta lifði sig inn í erilinn. Rifjaði upp gamla takta og stóð við hliðið. Fleiri ær vildu þar inn en höfðu aðgangskort. Margar gerðust aðgangsharðar. Svo og dilkarnir. Ein eða tvær ruddust í gegn. Þær voru fjarlægðar snarlega.

Ásta naut sín vel

Guðmundur bóndasonur og Ásta gæta hliðsins.

Um morguninn hafði verið súld og þoka. Skilyrðin á fjallinu fremur leiðinleg. Svo stytti upp og veðrið varð hið besta. Bændurnir einbeittu sér og margir drógu.

Þóra, Áki, Anna og Þorgerður

Þóra, Áki, Anna og Þorgerður heimasæta. Hnakkinn á Ástu.

Líklegt er að fleira fólk hafi verið á áhorfendapöllunum en við dráttinn. Það er alkunna. Fyrrverandi bændur hölluðu sér fram á réttarvegginn og fylgdust með og spjölluðu: „Þarna er Hyrna, manstu, og golsótta gimbrin hennar frá í fyrra.“ „Var hún ekki tvílembd í fyrra?“ „Jú, en annað lambið drapst undan henni. Það var lamba-kóngurinn.“

Sámsstaðaféð á heimleið

Sámsstaða féð rennur vestur gömlu slóðina heim að Sámsstöðum. Gott hefði verið að hafa öflugri linsu.

Svo lauk erlinum. Hver fjölskylda safnaði sínu fé og hélt heimsleiðis. Ég reyndi að taka mynd frá Litlatré norður yfir Hvítá af heimrekstri Sámsstaðafjárins. Það hefði verið gott að hafa öflugri linsu. En svona dagar eru dýrmætir. Þeir eru fullir af lífi, afkomu bænda og búaliðs í nútímanum eins og í árdögum þjóðar og félagslegt konfekt fyrir okkur hin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.