Við sátum inni, það rigndi úti, og horfðum á vindinn bæra laufin á litlu hríslunum okkar. Svo lygndi. Þá komu gestir úr loftinu og settust á bekkinn úti á pallinum. Við höfðum ekki séð þá fyrr. Þetta voru smávinir. Foldarskart, eins og Jónas orðaði það. Þeir voru tveir. Kyrrir og prúðir í fasi og litust um. Við sátum hljóð.
Þeir sátu nokkra stund. Foldarskart. Við reyndum að greina þá. Yndisarð. Myndina varð að taka í gegnum gler. Tvöfalt gler. Það er ekki góður kostur. Þeir sátu enn og við sóttum fuglabókina, þá stóru. Rautt ennið gerði útslagið. Auðnutittlingar. Þetta varð gleðistund.
Skömmu síðar, þá voru þeir fyrri tveir farnir, kom gulleitur hnoðri og settist á grindverkið. Hann skoðaði umhverfið rannsakandi augum eins og hinir höfðu gert. Við þekktum hann ekki fremur en hina tvo. Sáum tvo möguleika í fuglabókunum, þeirri stóru og þeirri litlu hans Jóhanns Óla, en treystum okkur ekki til að ákveða. Bið um hjálp lesenda pistilsins ef þeir þekkja fuglinn.
Læt fylgja hér síðasta erindi ljóðsins Smávinir eftir Jónas Hallgrímsson:
Smávinir fagrir, foldarskart,
finn ég yður öll í haganum enn.
Veitt hefur Fróni mikið og margt
miskunnar faðir. En blindir menn
meta það aldrei eins og ber,
unna því lítt, sem fagurt er,
telja sér lítinn yndisarð
að annast blómgaðan jurtagarð.