Tungan er tvíeggja tól

Það kom fljótlega í ljós að hún var seinfær. Þó ekki meira en svo að hún gat leyst flest þau viðfangsefni sæmilega sem fjöldinn þarf að stríða við. Svo kom að því að hún giftist og eignaðist börn. Það komu engin sérstök vandamál upp nema helst í skipulagsmálum heimilishaldsins. En hún lagði sig alla fram og lífið gekk sinn gang.

Börnin fengu inni á leikskóla og hún mætti með þau þar á hverjum morgni. Ekki tókst henni alltaf að mæta með þau á tilsettum tíma. En hún lagði sig fram. Hún var alltaf snyrtileg til fara og setti metnað í að líta vel út þegar hún mætti með börnin í leikskólann. Svo fór hún heim aftur og tók til við heimilisverkin og hversdagslífið.

Hún átti alltaf erfitt með að tjá sig. Sjálfsmatið var á lægsta stigi og þegar einhver ávarpaði hana varð hún niðurlút og henni vafðist tunga um tönn. Líf hennar einkenndist því af fáum orðum og oft var gengið yfir hana vegna þess að hún hafði ekki djörfung til varnar. Einn daginn þegar hún kom með börnin í leikskólann, hún var aðeins of sein, en samt fín til fara og vel til höfð, tók konan sem stýrði leikskólanum, eldri kona, á móti henni með oflæti og sagði:

„Maður gæti haldið að þú værir úti á lífinu alla daga.“
Aldrei þessu vant leit seinfæra konan ekki undan og svaraði
leikskólastýrunni að bragði:
„Bara á virkum dögum.“

2 svör við “Tungan er tvíeggja tól”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.