Ástfangnar færeyskar konur

Undanfarin ár hefur verið keppt í kappróðri á sjómannadaginn í Reykjavík. Hefur keppnin farið fram í Reykjavíkurhöfn. Færeyskar konur búsettar á Íslandi hafa unnið kappróðurinn undanfarin ár með talsverðum yfirburðum.

Nokkuð hefur borið á því undanfarnar vikur, í fjölmiðlum, að talað hefur verið í kaldhæðnum tóni um keppnina: „Færeyskur saumaklúbbur einokar róðrakeppnina.“ Í ár hafa níu lið skráð sig til keppni. Þar á meðal er lið JPV útgáfu sem safnaði saman rithöfundum sínum til að keppa við þær færeysku og hugsa þeir sér vafalítið að sigra þær.

Marína Svabo Ólason, sem er formaður saumaklúbbsins Stokkarnir og fyrirliði róðrasveitarinnar, sagði við Fréttablaðið í gær, lítillát og hógvær: „Okkur finnst við ekki merkilegar.“ Og þegar hún var spurð hvað hafi valdið því að þær eru búsettar á Íslandi svaraði hún: „Giskaðu nú bara einu sinni. Elta einhvern yndislegan og fallegan Íslending. Að sjálfsögðu. Þeir eru svo flottir.“

Við getum nú svo sem tekið undir það með Marínu, en hún er gift Jóni Gils Ólasyni sem þessi árin glímir við virkjanagerð í Grænlandi.

Jón Gils, Kristín Lív og Marína

Hér er fjölskyldan í heimsókn í Litlatré í fyrra, með kúrekahatta frá Siggu frænku í Texas.

Er pistill þessi skrifaður til að hvetja vini og velunnara til að mæta niður á Reykjavíkurhöfn á sjómannadaginn, sunnudaginn 3. júní kl. 14:00 og hvetja þessar ástföngnu færeysku konur til sigurs eitt árið enn. Það væri og sigur fyrir áhugasama feminista.

Eitt andsvar við „Ástfangnar færeyskar konur“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.