Morgunn með nýrri ríkisstjórn

Það blasir við að Morgunblaðið er eina dagblaðið sem kann að hanna forsíðu sem svarar blaðalesendum um tíðindi stjórnmálanna frá deginum í gær. Morgunblaðið er jú eina alvöru dagblaðið á Íslandi. En í fregnum af nýrri ríkisstjórn er fátt spennandi að hafa. Að sjálfsögðu eru þau Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún sjálfkjörin sem fyrirliðar sinna flokka. Annað vekur enga sérstaka gleði, nema endurkoma Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ég er hrifinn af skipun Jóhönnu Sigurðardóttur í velferðarráðuneyti. Hef ævinlega dáðst að henni og baráttuþreki hennar í gegnum árin og áhuga hennar á afkomu og velferð venjulegs fólks, alþýðufólks, sem lítils má sín í baráttunni fyrir sæmilegri afkomu. Í mínum augum er hún ekta krati, þ.e. jafnaðarmaður sem þekkir hugtakið verkafólk og kjör þess, út í gegn.

Um aðra ráðherra er fátt að segja. Það var auðvitað ekki hægt að gera Jóhannesi í Bónus það til geðs að láta Björn Bjarnason víkja. Hafa afskipti Jóhannesar ( sem eru verulega ósvífin) af stjórnmálum, sennilega orðið til þess að Björn situr áfram. Það á vel við.

Nýliðarnir vita tæpast út í hvað þeir eru komnir, og verður lærdómsríkt að sjá t.d. Guðlaug Þ. Þórðarson takast á við heilbrigðisráðuneytið þar sem allt of mörg atriði eru í molum. Þó er til bóta að færa tryggingamálin inn í félagsmálaráðuneytið til Jóhönnu. Þá veldur það undrun og vonbrigðum að ráðuneytum var ekki fækkað niður í tíu, helst í átta. Tólf ráðuneyti er bruðl.

Fréttin um að Hæstiréttur hafi fallist á að taka mál Eggerts Haukdal upp að nýju er stórfrétt. Loksins, eftir sex ára baráttu, fær hann mál sitt tekið upp að nýju, mál sem virðist hafa verið dæmt eftir röngum gögnum og maðurinn sviptur ærunni að ósekju. Lærdómsríkt verður að heyra málalok.

Annars er bökunardagur hjá mér í dag. Súrgeigsbrauð í ofninum. Það er alltaf jafn lærdómsríkt að sjá hvað lítið súrgeig þarf til að sýra allt deigið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.