Bók sem ekki verður lesin, heldur einungis lesin aftur

Þetta er merkileg setning. Hún er sögð um hina margrómuðu bók Ódysseif eftir James Joyce. Ég er að lesa hana aftur. Á fullt í fangi með að halda mér við efnið samt. Það var þó miklu verra í fyrra skiptið. Hugurinn, þetta gufukennda fyrirbæri, vill þvælast frá mér út um víðan völl og þarf ég aftur og aftur að grípa í taumana, beislistaumana, til að aga hann.

Það fór fyrir mér á svipaðan hátt þegar ég fyrir liðlega fjörutíu árum tók til við að lesa Biblíuna, heilaga ritningu. Þá stóð ég hugann að því að fara út og suður aftur og aftur og aftur í erfiðustu köflunum. En ég lét mig ekki. Rak sjálfan mig til baka á fyrstu orð kaflans sem ég glímdi við og gaf huganum ekki kost á undanbrögðum þótt ég merkti stundum verulega óvild koma upp á milli hugans og mín.

Í framhaldi tók ég að skilja hversu margt, sem kennt er við innri manninn í hverjum manni, getur verið flókið og erfitt að átta sig á og skilgreina. Það hefur því ekki verið út í bláinn sem Descartes hvatti menn til að taka ekki of mikið mark á sjálfum sér og setti sér eftirfarandi reglu: „Fyrsta reglan var að hafa ekkert fyrir satt, […] “ Orðræða um aðferð bls. 79.

Og ennfremur: „Í dag létti ég því af mér öllum áhyggjum, tryggði mér ákjósanlegt næði, er einn út af fyrir mig, og hyggst snúa mér að því að rífa til grunna allar fyrri skoðanir mínar, í fyllstu alvöru og eins og mér sjálfum sýnist.“ Rene Descartes: Meditationes de Prima philosophia., Hugleiðingar um frumspeki. Fyrsta hugleiðing, Um það sem dregið verður í efa. Þýð: Þorsteinn Gylfason. Útisetur, bls. 351.

Víki ég aftur að glímunni við Ódysseif þá er eftirfarandi setning höfð eftir höfundinum, James Joyce, um bókina: „Þessi bók var samt sem áður glæfraspil. Milli hennar og sturlunar er aðeins glær himna.“

Það er þessi glæra himna og aðrar himnur henni skyldar sem vekja forvitni manns og fá mann til að velta fyrir sér öllum þeim flækjum sem í hverjum einstaklingi búa og hann þarf að glíma við. Það er að segja ef hann á annað borð hefur áhuga á að skilja og skilgreina sjálfan sig, umhverfi sitt og annað fólk. Og staddur í slíkum vangaveltum er ekki ólíklegt að aðferð Descartesar verði nauðsynlegur upphafsreitur, „[…] að rífa til grunna allar fyrri skoðanir mínar, […] “

Líklegt má telja að dýrustu textar mannsandans verði ekki lesnir, heldur einungis lesnir aftur, og þess vegna muni andstutt nútímafólk hljóta þau örlög að busla utan við sjálft sig á hinum ýmsu grynningum elfunnar og fara á mis við margt af þeim unaði sem „blásið var í nasir þess í upphafi“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.