Um það varð sátt í samlífi okkar Ástu minnar, fyrir liðlega tuttugu árum, að ég tæki við eldamennskunni á heimilinu og gæfi henni frí. Hún hafði þá eldað ofan í okkur átta manna fjölskylduna í tæp þrjátíu ár. Vissulega hafði fækkað í hópnum þegar þessi þáttaskil urðu og kann ég tengdadætrum mínum einlægar þakkir fyrir það.
Fljótlega eftir að ég gerðist matráðskona, – matráðskarl eða matráðsmaður, vildi ég ávinna mér hrós, (það er sagt um vogina að hún nærist á hrósi) og tók að kaupa bækur um mat og lesa og leita að uppskriftum af nokkurri ástríðu. Eftir hringferð í kringum hnöttinn, í bókum, með aðeins meiri viðkomu í París og Kína, hefur þróunin orðið sú að indverskur matur hefur orðið einskonar aðal eldhússins og sérgrein, ef ég má orða það svo hátíðlega.
Að hluta til stafar þetta af hrifningu Ástu af indverskum mat en fyrir hann fæ ég gjarnan mesta hrósið. Því er það svo að þegar við bjóðum fólki í mat þá berum við gjarnan fram mismunandi indverska rétti, light, medium og hot, nema á Þorláksmessu, þá er alíslensk kæst skata, tólg og rúgbrauð á borðum.
Nú hefur það stundum hent að tengdadætur og aðrar dætur hafa óskað eftir uppskriftum að réttunum en ég alltaf neitað. Staðfastlega. Rökin verið þau að það væri ekki sniðugt ef sami matur, sömu réttir, væru bornir fram í öllum húsunum. Fékk ég stundum sérkennileg, ásakandi augnaráð frá viðmælendum við þessum rökum.
Þetta kemur upp í hugann þegar ég þvælist um bloggheima þessa dagana og sé allan þennan fjölda bloggara tjá sig um sama efnið, stjórnmál. Dag eftir dag. Þeir taka upp setningar hver eftir öðrum svo að sjaldan kemur nokkuð nýtt fram utan sárafárra undantekninga. Er eiginlega sami grautur í sömu skál.
Mikið væri skemmtilegra að ferðast um bloggheima ef þetta gæti breyst pínulítið. Ha?
Sama þreytan og sama þjóðarsorgin sem hrjáir fólk?
Er það þreyta og sorg af völdum vindsins
sem snýr ósjálfstæðu fólki í hring eftir hring?
Það mundi hjálpa ef þetta væri útskýrt örlítið.
Hallast frekar að hinu. Fólk skortir að leysa hugsunina af fjötrum vanans. Saga mataruppskrifta á litla Íslandi…er besta sönnun þess.
Er fólk nokkuð að taka upp setningar hvert eftir öðru?
Er það ekki bara sama þreytan og þjóðarsorgin sem hrjáir fólk?