Gras

Kornungur, – kannski sjö eða átta ára, austur í Kirkjulæk í Fljótshlíð þar sem afi minn Steinn var bóndi og amma Sigurbjörg, – tók ég eftir því að þegar ég gekk í fótspor afa míns, sem var stór og sterkur maður með yfirskegg og var í vesti og í vestinu var úrið hans með keðju og ég gat ekki tekið eins stór skref og hann, að hvort sem við vorum að fara upp á Rima eða austur á Bakka, og ég elti hann, …

…að þegar hann steig á grasið og það bældist undir gúmískónum hans, þessum svörtu með hvítu sólunum, þá reisti það sig alltaf við svo til strax. Og þá hætti ég að feta í sporin hans en steig við hliðina á þeim til að bæla grasið ekki strax aftur. Það var allt svo öruggt og tryggt þegar ég elti afa Stein um jörðina hans og stundum tók hann í höndina á mér og leiddi mig ef það var tæpt á lækjarbökkunum.

Allt svo tryggt og öruggt nema þetta eina. Ég vissi að ég yrði að fara heim til mömmu og pabba þegar þau ákváðu það. En þar var ekki svo margt öruggt og tryggt.

2 svör við “Gras”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.