Annar í bókajólum

Þetta hefur verið stórkostleg hátíð hér innan við Horngluggann. Og við skiljum það þannig að frelsarinn okkar, – sem fornleifafræðingar segja nú að hafi verið fæddur í Betlehem nyrðri, það er, skammt frá Nasaret og fellur líklega betur að frásögum guðspjallanna, – hafi með lífsafreki sínu skráð spor sín svo óafmáanlega í sögu mannkyns að meiri hluti þess minnist hans árlega á jólum.

Og auðvitað vita menn, ef þeir á annað borð vilja eitthvað um merg málsins vita, að þrátt fyrir brjálsemi verslunaræðis og glys og gjall þá voru það þjáningar annarra sem frelsarinn bar. Þjáningar annarra. Ný bók á markaðnum hefur vakið á sér athygli fyrir titilinn. Ber hún heitið Um þjáningar annarra og er eftir Susan Sontag. Bókin var á óskalista okkar Ástu
og því mikil ánægja þegar hún birtist úr einum jólapakkanna.

Það fjölgar því hægt og bítandi í hópi elskulegra afrekskvenna í hillunum hér, kvenna sem sumar hverjar lögðu ofurást á aðrar konur, en með Susan Sontag kemur einmitt í fjölskylduna ástkona hennar, ljósmyndarinn Annie Leibovitz.

Á skrifborðinu mínu, síðustu ár, stendur póstkort með mynd af málverki eftir William Strang sem heitir Lady with a red hat og er portrait af Vitu Sackville West, blómaskreytingarkonu, sem jafnfram var ástkona Wirginiu Woolf. En Sontag hefur bók sína, Um sársauka annarra, einmitt með hugleiðingum, byggðum á skrifum Woolf um styrjaldir og þjáningar annarra

Já, það bárust yndislegar bækur í heimilið, fallega innpakkaðar í rauðan og grænan pappír og góðar óskir. Hannes Pétursson segir að: „Þrátt fyrir allt / og allt / er okkur guðlöstunarmönnum / gefið að sjá margt vonfagurt / eða nema það líkt og hlýjan vind af hafi.” Fyrir kvölddyrum bls. 34. Þá má telja höfundana Auði og Fríðu, Thomas Hardy, Georg Orwell, Friedrich Schiller, Frá sál til sálar um ævi og verk Guðmundar Finnbogasonar, svo eitthvað sé nefnt.

En glæsilegastar í hópi margra góðra bóka sem tilheyra flóðinu í ár eru, í okkar huga, þær tvær sem við gáfum hvort öðru, hjónakornin, strax við útkomu þeirra og höfum lesið á aðventunni, Ólafía, ævisaga Ólafíu Jóhannsdóttur eftir Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Upp á Sigurhæðir, saga Matthíasar Jochumssonar, eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur.

Ég lýk pistli þessum með því að vekja athygli á Bænabandinu, eftir Martin Lönnebo sem Skálholtsútgáfan gaf út 2005. Undirtitill segir: Þjálfun í lífsþrótti, lífslöngun, sjálfsstjórn og í þvi að lifa í návist Guðs.

Síðasta orðið á Voltaire: „Það sama gildir um bækur og menn, örfáar skipta máli, hinar týnast í mergðinni.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.