Ljós í mannheimum

Klukkan var rétt farin að halla í sjö, svo sem eins og þrjár mínútur, í morgun þegar sængin við hliðina á mér í rúminu sagði: „Viltu kaffi?“ Litlu síðar sátum við við Horngluggann og sötruðum drykkinn, sjóðheitan. Útsýnið við gluggann var töfrandi.

Ljósadýrð nýrra mannabústaða lýsir upp hæðir og holt, landslag sem fyrir þremur árum var einfaldlega hæðir og holt. Nú virðist manni byggðin vera komin langleiðina upp á Sandskeið. En útsýnið svona árla dags er eins og í undralandi. Við glöddumst yfir því.

Annars er dagurinn helgaður jólahreingerningu í eldhúsi. Hugsið fallega til okkar.

Klukkan 12:10

Ásta ákvað að gera hlé yfir fréttatíma útvarpsins. Ég skaust út á svalir því nú var sólin farin að leika sér við húsin í nágrenninu. Raunar hafði ég fylgst með því þegar ég þvoði gluggana að utan.

Klukkan 14:00

Nú gafst tími til að skoða Lesbókina. Fullt af auglýsingum. Það eru breyttir tímar. Minnist þess þegar ég hringdi í Gísla Sigurðsson fyrir mörgum árum síðan, en hann var ritstjóri Lesbókar um langt árabil, og spurði hvort hann vildi birta auglýsingu frá mér í Lesbók. „Það eru aldrei auglýsingar í Lesbók,“ svaraði hann að bragði.

Upphaflega kynntumst við Gísli lítilsháttar þegar hann var ritstjóri Vikunnar. Það var á árunum þegar ég taldi mér trú um að ég gæti skrifað.

2 svör við “Ljós í mannheimum”

  1. Þú getur skrifað, gamli. Enga vitleysu.

    Íslensk þök eru falleg. Það finnst Englendingum a.m.k., en þökin þeirra eru öll grá og guggin.

  2. Sæl og blessuð bæði tvö. Mikið er myndin falleg, sé að það er svipuð snjóföl syðra og í Kalmanstungu. Hér er líka mjög fallegt, þó ég geti ekki sent ykkur mynd.
    Hugsa fallega til ykkar í eldhúsinu, ég er búin að setja upp þó nokkuð af ljósum innan dyra til að lífga upp á tilveruna og skammdegið.
    Kærar kveðjur til ykkar Ástu.
    Kalmanstunguhjón.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.