Litlatré – ástarljóð

Þar er hamar og sög
hefill og sporjárn úr stáli
málband
blýantur bak við eyra
ýmiss saumur í belti
högg og bergmál í veggjum

þar er himinn og jörð
sólskin og ský eins og gengur
þoka
áleitin sest á stráin
fjölbreytt flóra á þúfum
barð og gróður í gjósti

þar er melur og beð
stilkar frá árinu áður
aspir
lerki, greni og kvistur
fura græn undan vetri
suð og söngur í flugum

þar er Hvítá í grennd
straumþung og hvít eins og jökull
sundfugl
endur gæsir og smáir
kenndir við byggðir í móum
fuglar dansa í lofti

þar er Strútur og Ok
Langi og fellið á milli
Hafurs
býlin og bænda erill
vor í lofti og annir
hjarðir og lömb í haga

þar er Britten og Bach
Beethovens töfrandi flygill
Mosart
adagio largo og presto
Dvoraks angurvært selló
Edith Fúsi og Flugan

þar er Kafka og Kant
Kiljan og Platon og Nietzsche
Kristur
andinn sem öllu er æðri
þar er ástin mín Ásta
lykillinn lífi að mínu.

(Ath. Litlatré er tómstundasmáhýsi á bökkum Hvítár í Borgarfirði.)

Eitt andsvar við „Litlatré – ástarljóð“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.