Kastljós – hrós

Það verður að segjast að lærdómsríkt var að fylgjast með viðtali í Kastljósinu á Rúv í gærkvöldi. Í þættinum ræddi Kristján Kristjánsson við Gest Jónsson, lögmann og verjanda Jóns Ásgeirs Jóhannssonar, í Baugsmálinu svokallaða. Hrósið fær Kristján Kristjánsson fyrir einurð og ákveðni ásamt því að koma vel undirbúinn í viðtalið.

Tvennt virtist koma illa við Gest. Að fullyrðingar Gests og annarra liðsmanna Baugs um ótrúverðleika Sullenbergers, sem þeir hafa margsinnis endurtekið og borið fyrir sig dóm héraðsdóms þar að lútandi, séu rangar. Benti Kristján á að þau orð væri hvergi að finna í dóminum sem hann hefði lesið yfir af nákvæmni og hafði með sér.

Þá fríaði Gestur sig af allri ábyrgð á þeim lygum sem ákærendur í málinu hafa borið á starfsfólk Kastljóss um þátttöku þess í gleðskap í hinum margnefnda skemmtibáti The Viking. Lýgi sem sett var fram til að sverta starfsmenn Kastljóssins og gera þættina ótrúverðuga. En hverjir eru ótrúverðugir af þeim orðum?

Fróðlegt og sanngjarnt var að fá bæði þessi atriði fram. Á Kristján hrós skilið fyrir skelegga frammistöðu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.