Góðilmur

Það seytlar lítill lækur, rauðleitur, niður Skógarhlíðina ofan og austan við Sauðhúsin. Það safnast í hann ofan úr Kotbrúninni. Hann er svo lítill að hann getur naumast talist lækur. Vatn sígur í hann úr mýrunum og sumstaðar hafa myndast pyttir. Þeir eru hvorki stórir né djúpir. Það heyrist gutlhljóð þar sem vatnið rennur í pyttina. Stundum heyrist gutla á tveim stöðum í einu. Og lækurinn, sem heitir Djáknalækur, líður áfram í krókum og beygjum og endar að lokum niður í Hrauná.

Talsverður birkiskógur er á svæðinu umhverfis lækinn. Að vestanverðu ber hann heitið Skógur. Þar skiptast á mýrar og skógarbelti. Heyjað var upp með Djáknalæk á haustdögum. Voru þá þrír karlmenn eða fleiri með orf og ljá og konur með hrífur að raka heyinu saman. Færa það af blautu landi yfir á þurrt og gera þar flekki og rifgarða. Við unnum þarna sumarkrakkarnir ásamt heimafólki og eigum góðar minningar þaðan, sum okkar.

Gamall stígur, eða hestavegur, lá frá heimatúninu og vestur að Sauðhúsum og Djáknalæk. Lá hann yfir Bæjargil á Túnvaðinu, vestur Kirkjumýri að Ytragili þar sem farið var yfir á Miðvaði. Þessi leið var gjarnan gengin þegar aðrir kostir voru ekki tiltækir. Eitt kvöldið, hæfilega lúin og lerkuð eftir strit dagsins, gengum við þessa leið, frá Djáknalæk og heim á bæ.

Það var súld í lofti og blautt á. Stafalogn. Reyrilmur í loftinu. Vatn sat í haugum á grasstráum og mótaðist slóð eftir göngumenn. Undarleg ógleymanleg tilfinning fyllti veru mína, hug og hjarta, þar sem ég gekk í slóð næstu manneskju á undan mér. Einskonar ölvun gagntók mig, hrifningar og hamingjuástand, þar sem ég þræddi spor stúlkunnar sem ég var gagntekinn af og unni og ann. Þetta var á Gilsbakka í Hvítársíðu fyrir liðlega hálfri öld.

Endurminningin, og myndin af göngu þessari, kemur upp í huga minn í hvert sinn sem meiri háttar alvara og átök sækja að mér, og hún græðir mig með góðilmi sínum.

Eitt andsvar við „Góðilmur“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.