Dýrasaga og greining

Eitt af viðfangsefnum Dagnýjar Kristjánsdóttur í bók sinni, Undirstraumar, er smásaga Ástu Sigurðardóttur, Dýrasaga. Það var mér mikil opinberun að fara í gegnum greiningu Dagnýjar á smásögunni og kemur þar fleira en eitt til. Ásta var fædd 1930 og því þekktu menn á mínum aldri talsvert til hennar. Hún var áberandi á sinn sérstaka hátt og kallaði yfir sig fordóma og slúður í öllum regnbogans litum. Og svo var hún fyrirsæta og rithöfundur.

Miðað við þau viðbrögð sem sögur Ástu fengu á sinni tíð er merkilegt að lesa orð Dagnýjar. Hún segir: „Dýrasaga er þrungin af innri spennu, full af táknum og tvíræðni og þess vegna nota ég hugtök og heiti úr sálgreiningu til að hjálpa mér við textagreininguna.“ Og síðar: „Ég er ekki sálgreinandi og Ásta er ekki sjúklingur… …Greiningin hér á eftir beinist því að bókmenntatextanum en ekki höfundi hans.“

Dagný kallar til liðs við sig mikla fræðimenn eins og Freud og hugtak hans um „yfirfærslu“, einnig Shoshana Felman og sálgreinandann Lacan, svo og marga fleiri kunna og viðurkennda fræðimenn. Það er því verulega jákvæð reynsla og opinberun að fara í gegnum Dýrasögu Ástu Sigurðardóttur undir leiðsögn Dagnýjar Kristjánsdóttur. Ég las grein Dagnýjar tvisvar og verð að segja að nýr skilningur og nýtt viðhorf hafa opnað þessa smásögu sem er alls ekki jafn smá og ýmsir hyggja.

Það var nefnilega svo að fyrir liðlega 40 árum, þegar ungir menn lásu allt um bækur og bókmenntir, þá fjallaði Ólafur Jónsson bókmenntafræðingur um sögur Ástu Sigurðardóttur í Andvara og hafði þetta að segja: „…Nokkuð öðru máli gegnir um Dýrasögu, nýja af nálinni, sem þó er einnig misheppnuð. Hún segir af hatursofsókn fullorðins manns gegn lítilli stjúpdóttur sinni, en persónur sögunnar eru svo ýktar og lítilsigldar í senn, að þær verða aldrei trúverðugar, taumlaus óhugnaður sögunnar lýtur engum listrænum tilgangi.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.