Súpa dagsins

Það er eitt og annað sem ber fyrir augu og eyru á einni viku. Og ef litið er upp úr verkefnum og til baka á sjöunda degi og rifjað upp áreiti og atvik sem mættu manni yfir vikuna, þá valda sum þeirra angri sem hollt getur verið að tjá sig frá, sbr. „Meðan ég þagði tærðust bein mín“. Reyna þannig að losna við angrið af gerviblaðri nútímans sem alltof víða viðgengst. Og stappa í sig stálinu í baráttunni við að láta ekki strauminn hrífa sig með. Fyrsta platið var í Húsasmiðjunni um hádegi einn daginn.

Eftir að hafa gengið um verkfæra- og vörudeild og litið við í blómavalinu, og farið með óverðmerkta hluti að kössum til að fá verðið á þeim, staldraði ég við í veitingastofu verslunarinnar. Ilmurinn freistaði. Rækjusúpa, stóð á seðlinum. „Má ég biðja um súpu, takk?“ „Sjálfsagt,“ sagði konan og jós upp á disk. Ég borðaði súpuna yfir gömlu dagblaði sem lá þar frammi. Það reyndust vera tvær rækjur í allt, af stærðinni 450 – 550 stk. í kílói, í rækjusúpunni minni.

Í fréttum vikunnar var talað heilmikið um háskóla og málefni þeirra. Ráðherra háskólanna, sem alltaf hljómar eins og hún ein viti allt best, (sem er óbiblíulegt sbr. Pd.7:16), sagðist hvergi gefa eftir með ákvörðun sína, hún væri kjörkuð manneskja og sterk og stæði við sína ákvörðun. Það sem ég hef samt aldrei skilið alveg í þessum háskólamálum er af hverju háskólum er fjölgað, eins og raun ber vitni, og síðan skorið niður fjármagnið til þeirra. Minnir óneitanlega á annan aula sem átti fjóra bíla en hafði bara efni á að hafa einn á skrá.

Þá var umræðan um gamla fólkið á öldrunarheimilunum áberandi, og niðurstöður úttekta á málefnum þeirra skammarlegar. Nefndi þetta við nágranna minn, einarðan eldri borgara sem býr einn. Við vorum samferða í lyftunni að sækja Moggann (karlinn tekur aldrei hin dagblöðin með sér). Ég spurði hvernig honum litist á að flytja á stofnun og þurfa að fara í herbergi með fjórum. „Þá mundi ég nú frekar hengja mig,“ svaraði karlinn að bragði og stappaði í gólfið með hækjunni sinni.

Það er alltaf dálítið skondið að fylgjast með stjórnmálamönnum. Þeir koma fram í sjónvarpi, á haustdögum, með bindi og blásið hár, og hrósa sér af glæsilegum tekjuafgangi ríkissjóðs. Tekjuafgangi sem er í rauninni alls enginn afgangur. Það er nefnilega verið að ræða um fé sem ýmsir málaflokkar eru sviknir um, eins og t.d. gamla fólksins, sem vegna stöðu sinnar á enga möguleika á að krefjast réttinda sem þó blasir við að það á og hefur puðað fyrir alla ævina með lögbundnu framlagi í ríkissjóð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.