Lesbókin pirrar

Alltaf hlakka ég til Lesbókarinnar. Hún er laugardagsmorgna ánægja mín. Næst á eftir kaffiklukkustundinni með Ástu við Horngluggann sem ætíð er efst á listanum. Það er samt aldrei þannig að allt efni í Lesbókinni falli mér, enda ekki hægt að ætlast til þess. En sumt les ég tvisvar og jafnvel þrisvar. Og gjarnan með blýanti. Í morgun voru tvö atriði sem pirruðu mig. Hið fyrra er myndin af Bush, á blaðsíðu 7. Ótrúlegt hvað mér leiddist að sjá hana þarna.

Hitt atriðið er að finna í forsíðugreininni, en hún er viðtal við þrjá kunna fræðimenn og bókmenntakennara við Háskóla Íslands, þau Ástráð Eysteinsson, Dagnýju Kristjánsdóttur og Svein Yngva Egilsson. Viðtalið skrifar Þröstur Helgason, umsjónarmaður Lesbókar. Efni samræðunnar er um nýja bók sem þau þrjú ritstýrðu og ber heitið Heimur ljóðsins. Efni greinarinnar vekur áhuga á bókinni. Allt gott um það að segja, en það var annað sem pirraði mig.

Það hefur komið fram í pistlum mínum að Dagný Kristjánsdóttir er hátt skrifuð hjá mér á þessum vikum. Bók hennar, Undirstraumar, hefur veitt mér mikla ánægju og opnað mér ánægjulegan skilning á einu og öðru sem bókmenntir varðar s.s. sálgreiningu og orðræðu geðveikinnar. Þess vegna pirraði mig að sjá hve hlutur hennar var lítill í þessu viðtali og ekki síst á dögum jafnréttis umræðu.

Það getur auðvitað vel verið að gildar ástæður séu fyrir því að hlutur Dagnýjar er minni en hinna. Karlarnir gætu til dæmis hafa tekið orðið af meiri ákafa en konan. Það sér maður oft t.d. í viðtalsþáttum í sjónvarpi. Eða þá að blaðamaður hefur beint spurningum sínum fremur til karlanna en konunnar. Hvað um það. Gerði ég ofurlitla hraðúttekt á viðtalinu og fékk þessar niðurstöður:

Ástráður svarar 16 sinnum í samtals 117 línum.
Dagný svarar 9 sinnum í samtals 85 línum.
Sveinn svarar 14 sinnum í samtals 133 línum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.