Nostalgía

Minning um pabba minn vitjar mín ævinlega á afmælisdegi hans. Sá er í dag. Pabbi var fæddur 1907. Hann lést langt um aldur fram, aðeins fimmtíu og fjögurra ára gamall. Þetta var flinkur og flottur maður. Hann hafði iðnaðarréttindi í þrem fögum. Í fyrsta lagi gaslögnum, þá í skósmíði og loks pípulögnum. Það var sérlega ánægjulegt að horfa á hendur hans þegar hann var að vinna. Á margar minningar um það.

Á Bjargi við Suðurgötu, í Reykjavík, áttum við heima í mörg ár. Hann hafði stækkað húsið að mun. Það var aðeins um 30 fermetrar þegar við fluttum í það. Þá var ég fjögurra ára. Fyrst lengdi hann húsið svo að það varð 50 fermetrar. Þeir hjálpuðu honum, Ólafur Steinsson, móðurbróðir minn, síðar bóndi á Kirkjulæk í Fljótshlíð og Guðmundur Þórðarson afabróðir minn frá sama bæ. Hann var kunnur smiður. Síðar lyftu þeir húsinu og þá varð kjallari undir því öllu. Þetta var á góða tímanum í lífi pabba. Þá gekk allt svo vel.

Ágúst ÓlafssonÍ kjallaranum kom hann upp skósmíðaverkstæði. Vann þar utan hefðbundins vinnutíma sem var við pípulagnir. Hann átti orðið fullkomið skósmíðaverkstæði. Pússurokk og saumavél, leista og allt sem til þurfti. Ég naut þess að horfa á hann skera til leður í skósóla. Síðan mátaði hann leðrið við skóinn, tyllti með blásaum, skar rák í jaðarinn og saumaði í höndunum með sýl, stakk í gegn, dró í gegnum auga og til baka, með þræði sem var feitiborinn. Loks lokaði hann rásinni, hitaði áhald og lakkaði kantana, burstaði skóna í pússurokknum og þeir urðu eins og nýir.

En hann týndist á milli. Elsku maðurinn. Týndi sjálfum sér í glaum og gleði með gömlum félögum. Sumir þeirra voru vinir hans frá árunum þegar hann stofnaði Lúðrasveitina Svan. Það ríkti mikill harmur á heimilinu þegar pabbi var týndur. Og mamma var grátbólgin dögum saman. Eiginlega fór ég alltaf að gráta með henni. Stundum varð ég að gera við skó sem fólk kom að sækja og pabbi hafi ekki lokið við. Þá bjargaði það mér hvað mér hafði þótt gaman að horfa á hann vinna. Hann vann svo fallega. Elsku maðurinn.

Ég segi meira af honum síðar.

Eitt andsvar við „Nostalgía“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.