Búið með kjark vorn og kjarna

Sú saga var sögð af Austfirðingum á fyrri hluta síðustu aldar, að svo þröngt hafi verið í búi hjá þeim eitt árið að þeir hafi neyðst til að borða útsæðiskartöflurnar á útmánuðum. Fólk hló að þessu og þótti atferlið bera vitni um lítil búhyggindi, skammsýni og fávisku. En hafi nú fátækt þeirra verið svo mikil að ekki hafi verið komist hjá því að borða útsæðið á „milli heys og grasa“, þá vakna spurningar um hvort útsæðiskartöflurnar hafi ekki samt haldið lífi í fólkinu og gert þeim kleift að tóra fram á grös.

Í Morgunblaðinu í morgun er grein eftir fjóra fyrirliða félaga eldri borgara á Íslandi. Hún ber heitið „Lýgur tölfræðin?“ Innihald greinarinnar fjallar um tölfræði stjórnmálamanna sem er „vísvitandi sett fram til að villa um fyrir fólki.“ Ég hef þá skoðun að stjórnmálamenn nútímans þurfi ekki að segja ósatt til þess að komast af við þegnana. Þeir geti einfaldlega lagfært það sem betur á að fara.

Þegar Stephan G. Stephansson orti Níðkvæði um Ísland á sinni tíð, beindi hann níðinu að „horvistar slóðum, ískrandi illviðrum, kúgandi merg þinna barna.“ Þannig var þetta og endurtók sig í gegnum aldirnar á „Farsældar Fróni.“ Fátækt, örbirgð og kuldi. Nú hefur tækni og framfarir unnið á flestum þeim vanda sem Stephan G. orti um. Guði sé lof fyrir það. Og Guði sé einnig lof fyrir það að um þessar mundir kraumar svo kröftuglega í kötlunum að það er skömm að til séu einstaklingar sem neyðast til að „éta útsæðið á útmánuðum“ því hjá mörgum hinna eldri er svo sem engin von um „grösuga framtíð.“ Ég horfi og til þeirra sem ekki eiga fyrir mat síðustu viku hvers mánaðar. Hverjir eru málsvarar þessara?

Níðkvæði um Ísland, eftir Stephan G. Stephansson.

Volaða land,
horsælu hérvistar slóðir,
húsgangsins trúfasta móðir,
volaða land!

Hafísa land,
ískrandi illviðrum marið,
eilífum hörmungum barið,
hafísa land!

Vandræða land,
skakkt eins og skothendu kvæði,
skapaði Guð þig í bræði,
vandræða land!

Drepandi land,
búið með kjark vorn og kjarna,
kúgandi merg þinna barna,
drepandi land!

Vesæla land!
Setið er nú meðan sætt er,
senn er nú étið hvað ætt er,
vesæla land!

Hrafnfundna land,
munt þú ei hentugast hröfnum?
Héðan er beint vorum stöfnum,
hrafnfundna land!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.