Hin ákærða númer fjögur

Hún átti sér leyndarmál. Leyndarmál sem hún lagði allt í sölurnar fyrir til að ekki kæmist upp. Þegar hún var færð fyrir dómara og ákærð fyrir stríðsglæpi í fangabúðum nasista, játaði hún á sig ýmis brot sem hún var saklaus af. Eingöngu til þess að leyndarmálið yrði ekki opinbert.

Hanna Schmitz. Sterklega vaxin, með breitt bak og kröftuga handleggi. Liðlega fertug. Þegar hún var kölluð upp stóð hún teinrétt og fast í báða fætur. Hún horfði öllum stundum á dómarana. Það kom út sem hroki og einnig það að hún talaði aldrei við hina sakborningana. Þær höfðu verið gæslukonur í útibúi frá Auschwitz. Hanna fór illa út úr réttarhöldunum.

Henni hafði tekist að egna dómarana á móti sér strax í byrjun. Eftir að búið var að lesa ákæruna bað hún um orðið til að koma leiðréttingu á framfæri. Dómarinn varð reiður. Hún hefði haft nægan tíma til kynna sér ákæruna fyrir réttarhöldin. En einmitt þar lá hundurinn grafinn. Leyndarmálið sem hún gat ekki hugsað sér að upp kæmist. Hún kunni ekki að lesa.

Bókin sem segir sögu Hönnu Schmitz heitir Lesarinn. Der Vorleser. Höfundur hennar, þýskur, er Bernhard Schlink og þýðandi Arthúr Björgvin Bollason. Mál og menning gaf hana út í kiljuformi, Syrtluröð, 1998. Ein af þessum sem maður les annað hvert ár.

Eitt andsvar við „Hin ákærða númer fjögur“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.