Erfiðismenn

Þátturinn í Ríkissjónvarpinu um Ragnar í Smára var ekki nálægt því að vera nógu vel gerður til þess að bergmála hug og stærð þessa unnanda lista, og þjóðarstólpa í því samhengi. Einn viðmælenda í þættinum, Halldór Kiljan Laxness, muni ég rétt, hafði þau ummæli um Ragnar að hann hafi gefið „erfiðisfólki“ tækifæri til að njóta listarinnar, með útgáfu á bókum og eftirprentunum og ekki síst því að gefa ASÍ málverkin sem urðu grunnur að listasafni þess.

Erfiðismaður. Mér hefur alltaf verið hlýtt til hugtaksins. Enda af slíkum kominn. Í raun hafa verkamenn verið mitt fólk. Verkamenn sem í hverri kynslóð eru erfiðismenn. Karlar og konur. Konur og karlar. Líklega vissara að taka það fram. Verkamenn sem vinna störfin sem flibbafólkið hagnast á. Og treður á. Rígheldur launum þess niðri, samhent, og segja þeim upp störfum þegar þarf að hagræða.

Í stjórnmálaumræðu undanfarna mánuði hefur mig undrað kjaftavaðallinn í vinstra liðinu sem þó gjarnan, og af afli um kosningar, telur sig vera málsvara erfiðismanna. Flest tækifæri kjaftaaðalsins hafa snúist um Írak og hefur manni stundum fundist að ýmsir í liðinu væru fremur þingmenn Íraka. Alls ekki íslenskra erfiðismanna. Og það er skítt. Þá var umræðan um fjölmiðlafrumvarpið öll hin furðulegasta. Í henni var hamast af miklu offorsi mánuðum saman og bruddu menn skjaldarrendur af mikilli innlifun. Ekki voru erfiðismenn oft nefndir á þeim mánuðum né málefni þeirra. Eitthvað allt annað virtist búa að baki.

Og það vakna spurningar. Til dæmis sú hvort ekki sé kominn tími til að hagræða á alþingi. Fækka þingmönnum um tuttugu til að byrja með. Fá þannig upp í eftirlaun þeirra ráðherra sem enn eru í öðru fullu starfi. Þannig er gert í einkageiranum. Elítan var annars furðu samstíga þegar hún samþykkti lögin þau. Ánægjulegt væri að sjá til hennar, stöku sinnum, taka jafn samhent á hagsmunum erfiðismanna sem, þegar þeir eru fullnýttir, eru skildir eftir svo til við eða undir fátæktarmörkum. Það væri verðugt málefni að hamast í.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.