Fyrst þegar ég sá hana stóð hún upp við Aga eldavélina í eldhúsinu í gamla bænum á Gilsbakka. Hún var með heklað sjal yfir herðarnar og svuntu framan á sér. Bundið yfir hárið. Hún drakk kaffi úr bolla. Af hjartans list. Hélt um bollann með báðum höndum og horfði ofan í hann. Mér virtist hún innhverf og þunglyndisleg. Ein af þessum sem ávarpar ekki ókunnuga að fyrra bragði. Hún var liðlega sextug þegar þetta var. Sjálfur var ég fjórtán ára. Sumarstrákur úr Reykjavík.
Hún var í daglegu tali kölluð Lína, en hét full nafni Nikólína Benjamínsdóttir, hafði verið vinnukona á bænum um langt árabil. Kannski alla ævi. Fékk síðar, að mig minnir, heiðursverðlaun frá Búnaðarfélagi Ísland fyrir trúmennsku og dygga þjónustu við húsbændur sína. Það var svo ekki fyrr en annað sumarið mitt á bænum, sem hún bauð mér inn í herbergið sitt. Þá lá vel á henni. Þetta var á sunnudegi. Hún var ekki með bundið um hárið og ekki með svuntu. Nú hafði hún dregið fram grammófón, handtrekktan, og nokkrar 78 snúninga hljómplötur.
Mér er ein platnanna sérlega minnisstæð. Eða öllu heldur eitt lagið á einni plötunni. Svertingjar sungu blús, en hann hefur alltaf hrifið mig. Ekki síst á döprum dögum. Eitt lagið á plötunni minnir mig að heiti We Three. Gæti heitið eitthvað annað. Svertingjarnir, kvartett, sem ég ekkert man hverjir voru, sungu þetta yndislega eins og svertingjum einum er lagið: „We three, we all alone, living in the memory, my echo, my shadow and me.“ Lagið og textinn gripu mig strax. Við Nikólína sátum á rúminu hennar, þögul og létum lögin fara í gegnum okkur. Ég bað hana um að spila þetta lag aftur. Hún brosti lítillega. Spilaði það fjórum eða fimm sinnum. Og við þögðum.
Þrjátíu árum síðar lá ég með bilaðan hjartavöðva í Borgarsjúkrahúsinu. Þá var Lína löngu dáin. Ég kúrði þarna með brenglaða meðvitund í þrjá sólarhringa. Heyrði svo einn morguninn snemma, í gegnum mókið, konu nokkra syngja lágum rómi, um leið og hún strauk hljóðlega yfir gólfið: „We three, we all alone, living in the memory, my echo, my shadow and me.“ Ég var svo þreklítill að mér tókst naumast að snúa mér til að sjá konuna. Hún var ósköp lítil og grönn. Á miðjum aldri. Hvítklædd. Strauk gólfið af einbeitingu og raulaði lagið: „…my echo, my shadow and me.“
Seinna, ég var við útför frænda míns, dapur í lund, sá ég litlu konuna álengdar. Hún setti blóm á leiði. Bogin, innhverf, grátandi og ótrúlega smávaxin. Blúsinn steig upp í hugskoti mínu: …living in the memory, my echo, my shadow and me.“
Eitt andsvar við „Blús“