Þú skalt ekki karlmann skrúbba

Ég kom að henni þar sem hún skrúbbaði Móse hátt og lágt. Upp úr sápulegi. Fyrir jólin. Hann var neikvæður að sjá og strangur á svip. Enda sýnist svo þegar lesið er eftir hann, að allt líkamlegt atlæti sé honum á móti skapi. „Þú skalt ekki þetta og þú skalt alls ekki hitt,“ eru orðin sem tengjast nafninu hans. Allt of margir hafa tekið þau upp og velt sér upp úr þeim og barið aðra með þeim. Ég naut þess að sjá Ástu skrúbba karlinn sem kom engum vörnum við. Fannst þó eins og hljómaði frá honum: „Þú skalt ekki karlmann skrúbba, að neðanverðu.“

Hef í morgun eins og undanfarna daga verið að lesa blöðin. Þau eru afskaplega leiðinleg á þessum árstíma. Ekkert nema auglýsingar. Markaður. Markaður. Markaður. Talað er um fimmhundruð bókatitla þetta árið. Þvílíkt fár. Nú skoða ég bókaauglýsingar og merki við hverjar ekki höfða til mín. Já, og hverjar ég hef ekki efni á að kaupa. Þær eru hátt í fimm hundruð. Enda gerist ég löggildur fátæklingur um áramótin.

Mig mun ekkert brestaFór samt í Kringluna í gær. Ætlaði á Laugaveginn en það rigndi þau býsn að Kringlan varð fyrir valinu. Þar var margt um manninn. Fór sem leið lá í Bókabúð Pennans og Eymundsen. Fór til að koma við bækur. Ætlaði að kaupa eina til tvær. Í fyrsta lagi bók Jónu Lísu, Mig mun ekkert bresta. Elsku Jóna Lísa, hún talar sorgina við sviplegan missi maka síns, Vignis Friðþjófssonar, út úr hjartarótum sínum.

Mig mun ekkert bresta, segir hún með öðru versi Davíðssálms 23. „Drottinn er minn hirðir.“ En maður heyrir samt óminn af angistinni sem hún upplifði. Bergmálið af angist sem vitjar hennar enn þó ekki svíði eins sárt undan. En öll þurfum við að lifa með atburðum og atvikum lífsins. Bæði góðum og vondum. Og víst er um það, að Jesús Kristur, blessaður frelsarinn, „nálgast þá og slæst í för með þeim,“ sem það leyfa.

Snjórinn á KilimanjaróNæsta bók sem ég hafði ákveðið að kaupa heitir Snjórinn á Kilimanjaró og fleiri sögur. Hún er eftir skáldhetjuna mína Ernest Hemingway og þýdd af Sigurði A. Magnússyni. Í bókinni eru 24 sögur. Gott að fá hana í safnið. Sigurði kann ég þakkir fyrir framtakið að þýða bókina. Loks þuklaði ég bók sem heitir Hið fagra er satt. Hún er eftir Kristján Árnason bókmenntafræðing með meiru. Kaflar hennar heita „um heimspeki“, „um skáldskaparlistina“, „um íslenskan skáldskap“, „um erlendar bókmenntir“ og „um þýðingarlistina og einstakar þýðingar“.

Hið fagra er sattÉg tók hana upp og fletti. Lagði hana frá mér. „Of dýr“. Tók hana upp aftur og strauk. Hugsaði „nei.“ Tók hana loks upp og skoðaði kaflaheiti. „Úff.“ Lagði hana frá mér. „Uss.“ Tók hana upp einu sinni enn. Dró fram skírteini eldri borgara. „Afslátt?“ „Sjálfsagt,“ sagði konan við kassann. Og þar með er fjármagn til bókakaupa uppurið. Þetta árið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.