Árið er alveg að renna út. Lætin umhverfis nálgast hámark. Ég vil þakka vinum mínum og gestum Vinakveðju fyrir heimsóknir á árinu. Þær hafa yljað mér verulega. Óska ég þeim um leið, af heilum hug, ríkulegs komandi árs og fjöldann allan af uppfylltum óskum.
Orðið varð maður
Ritningin, mest bóka, segir frá hinum stórkostlegasta atburði, holdtekt Spekinnar, Orðsins, og innkomu þess í heim mannanna. Hinn fátæklegi og einfaldi umbúnaður sviðsins undirstrikar hvar hina sönnu Speki er að finna og hvað Viskan hefur ólíkt eðli og yfirbragð heims mannsins, hvar oflæti, hégómi og hismi eru í hávegum höfð.
Dagur skötunnar
Fór í fiskbúðina í gærmorgun. Vildi vera snemma í því. Lyktin kom á móti mér út í bíl. Hún lofaði góðu. Fleiri voru að koma að. Karlar á efri árunum. Sumir svo haltir að þeir komust varla frá bílunum sínum. Einn svo slæmur að hann gekk út á hlið. Svo voru aðrir eldhressir og geystust yfir bílaplanið. Þarna voru líka konur. Ein í pels. Dálítið þóttaleg. Inni í búðinni var þröng.
Guði sé lof fyrir Kárahnjúka
Fyrra tilvikið var á rakarastofunni einn morguninn í vikunni. Ég fletti Herópinu, sem þar lá frammi, á meðan ég beið. Rakarinn var afar natinn og innilegur við manninn í stólnum. Hann ræddi um velmegun Íslendinga, lækkanir á eignaskatti, fjármagnsskatti og tekjuskatti. „Dásamlegir tímar,“ sagði hann og viðskiptavinurinn sagði „já,“ og „já“ og enn einu sinni „já.“ „Það er mikil Guðsblessun hvað þjóðin okkar hefur það gott,“ sagði rakarinn, „finnst þér það ekki?“
Huggun allt árið
Þau nálgast óðfluga, blessuð jólin. Það er gott að hugsa til þeirra. Hátíð ljósanna. Rætt er um að það hringli óvenjumikið í peningakössum verslana. Allsnægtaþjóð huggar sig með eyðslu.
Bar 185
Eitt af því fyrsta sem við gerðum var að fara í hljómdiskaverslun. Fundum eina risavaxna. Hittum þar fyrir ungan afgreiðslumann sem fór strax í tölvu að leita þegar ég söng fyrir hann hluta úr „We Three“, laginu sem sagt var frá í síðasta pistli. Hann bauð okkur síðan að fylgja sér um eina hæð niður. Þar voru hundrað rekkar með þúsundum titla og hann fann strax tvo diska með vinum mínum síðan fyrir 53 árum. We Three er á báðum diskunum. Blekblettirnir heitir, hét, kvartettinn. The Ink Spots. Þetta var í Buchananstræti.
Blús
Fyrst þegar ég sá hana stóð hún upp við Aga eldavélina í eldhúsinu í gamla bænum á Gilsbakka. Hún var með heklað sjal yfir herðarnar og svuntu framan á sér. Bundið yfir hárið. Hún drakk kaffi úr bolla. Af hjartans list. Hélt um bollann með báðum höndum og horfði ofan í hann. Mér virtist hún innhverf og þunglyndisleg. Ein af þessum sem ávarpar ekki ókunnuga að fyrra bragði. Hún var liðlega sextug þegar þetta var. Sjálfur var ég fjórtán ára. Sumarstrákur úr Reykjavík.