Guði sé lof fyrir Kárahnjúka

Fyrra tilvikið var á rakarastofunni einn morguninn í vikunni. Ég fletti Herópinu, sem þar lá frammi, á meðan ég beið. Rakarinn var afar natinn og innilegur við manninn í stólnum. Hann ræddi um velmegun Íslendinga, lækkanir á eignaskatti, fjármagnsskatti og tekjuskatti. „Dásamlegir tímar,“ sagði hann og viðskiptavinurinn sagði „já,“ og „já“ og enn einu sinni „já.“ „Það er mikil Guðsblessun hvað þjóðin okkar hefur það gott,“ sagði rakarinn, „finnst þér það ekki?“

Hálfri klukkustund síðar átti ég stefnumót við Ástu mína. Þar sem ég var mættur of fljótt hlustaði ég í rólegheitum á Ísland í nærmynd. Rætt var við Jónas Þóri starfsmann Hjálparstofnunar kirkjunnar. Hann var spurður að því hvort margir væru þurfandi og sæktu um aðstoð kirkjunnar fyrir jólin. Mig minnir að hann hafi sagt frá 900 umsóknum sem þegar væru komnar fram. Fólk vantaði peninga og mat.

Verst að vígi, samkvæmt orðum Jónasar, virtust einstæðar mæður standa. Svo og atvinnulaust fólk. Á Suðurnesjum væri mikið atvinnuleysi. Þrátt fyrir þessa dásamlegu tíma sem mennirnir á rakarastofunni lofuðu. Og mér varð hugsað til mannsins í Mývatnssveit sem í viðtali við RÚV sagði, þegar rætt var um lokun Kísilverksmiðjunnar: „Guði sé lof fyrir Kárahnjúka.“ Mátti skilja á honum að þangað mundu einhverjir íbúar Mývatnssveitar sækja atvinnu til að bjarga lífinu.

„Guði sé lof fyrir Kárahnjúka.“ Hvernig skyldi slík setning hljóma í eyrum þess fólks sem mest hefur hamast á móti framkvæmdum þar, eða á móti álveri hér og járnblendi þar? Hvaða reynslu skyldi það hafa af atvinnuleysi? Hvaða launaflokki skyldi það þiggja laun eftir? Og hvað skyldi það vera tilbúið að fórna miklu af velmegun sinni handa þeim sem minnst hafa?

Þetta kemur upp í hugann á dögunum fyrir jól. Minnugur margra jóla þegar erfitt reyndist að hafa fyrir nauðsynjum. Þegar atvinnurekandinn svaraði: „Nei, sem betur fer,“ þegar leitað ver eftir vinnu hjá honum. Síðasta reynslan er nýleg. Atvinnurekandinn kom til verkamannsins og sagðist vera í vanda, spurði hvort hann gæti hjálpað sér og unnið fyrir sig í þrjá daga. Verkamaðurinn sagðist vera bundinn í fimm daga en hann vildi gjarnan hjálpa og skyldi fá sig lausan ef hann fengi fjóra daga. „Nei, þá leita ég annarra leiða,“ svaraði hinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.