Bar 185

Eitt af því fyrsta sem við gerðum var að fara í hljómdiskaverslun. Fundum eina risavaxna. Hittum þar fyrir ungan afgreiðslumann sem fór strax í tölvu að leita þegar ég söng fyrir hann hluta úr „We Three“, laginu sem sagt var frá í síðasta pistli. Hann bauð okkur síðan að fylgja sér um eina hæð niður. Þar voru hundrað rekkar með þúsundum titla og hann fann strax tvo diska með vinum mínum síðan fyrir 53 árum. We Three er á báðum diskunum. Blekblettirnir heitir, hét, kvartettinn. The Ink Spots. Þetta var í Buchananstræti.

Næsta morgun fórum við í Burrel safnið, The Burrel Collection. Það var meiri háttar upplifun. Glæsilegt hús og glæsilegir munir. Eiginlega gekk ég agndofa um. Þarna var Rodin, Mane, Monet og Degas. Skatan og kötturinn eftir Chardin, Grái hesturinn eftir Gericault og ýmsir gullfallegir hlutar úr altaristöflum fyrra tíma eftir höfunda sem ég kann engin skil á. Þetta var morgun mikillar hamingju.

Lágmynd framan við safnið

Síðar litum við inn á Gallery of Modern Art. Þar vakti mesta athygli okkar feikn stór mynd af gráðugu fjölmiðlafólki sem gramsar af óseðjandi græðgi í högum manna. Étur fólk upp og tortímir því ef með þarf. Því miður var ekki til eftirprentun af myndinni. Hefði viljað eiga eintak. Síðar um daginn röltum við inn í McLellan Gallery. Þar mættum við þreyttasta starfsfólki sem við höfum séð á safni.

Svo var það sunnudagskvöldið. Klukkan var um sex og við gengin upp að hné, dauðþreytt eftir þramm frá því snemma um morguninn. Stödd á aðalgötu borgarinnar ákváðum við að setjast inn á næsta veitingastað. Það var nokkuð þéttsetið. Sex eða sjö karlmenn, líklega eldri borgarar, tóku hljóðfæri upp úr töskum. Gítar, trommur, trompet, tvær básúnur, saxófónn. Fylgdumst með þessu af eftirvæntingu. Allt í einu gáfu þeir tóninn. Þessi dásamlega sveifla.

Innlifun

Í miðju lagi kom hávaxin kona inn með látum. Rauk upp á hljómsveitarpallinn og tók rafmagnsbassa upp úr kassa. Kom inn í lagið með körlunum af krafti. Og sveiflan dunaði. Þau voru í einu orði sagt alveg dásamleg. Hvert lagið á fætur öðru fyllti húsið. Hljómurinn mikill og lögin kunn frá miðri síðustu öld. Sóló á gítar, sóló á bassa, sóló á trompet og básúnu. Og trommur. Minntu á Gene Krupa. Rythminn fyllti beinin og þreytan vék. Eins og dögg fyrir sólu þegar þeir léku:

After you’ve gone and left me cryin’
After you’ve gone there’s no denyin’
You’ll feel blue, you’ll feel sad
You’ll miss the dearest pal you’ve ever had.

Það hljómar enn fyrir eyrum mínum. Og þetta var einn toppurinn í ferðinni. Bar 185. Hver þessi við erum, sem fórum saman í ferð? Auðvitað við þrjú. Ásta mín, Gunný mín og ég.

Við þrjú

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.