Kryddlegin hjörtu

Átti erindi í gærmorgun á ýmsa staði til að afla efnis í afmælismáltíð Ástu minnar. Meðal annars í Kringluna. Keypti þar handarkrikabrauð. Handarkrikabrauð? Hvað er það? Það er baguette. Í París sér maður allskyns fólk koma út úr búð með baguette í handarkrikanum. Sagði einu sinni við stúlku sem afgreiddi í bakaríi í Reykjavík: „Eitt handarkrikabrauð, takk.” Hún sagði: „Eitt hvað?” „Handarkrikabrauð,” endurtók ég. Og þá eldroðnaði hún. Kúnstugt.

Það var annars við kassann í Kringlunni, þennan með færri en tíu stykki, ég var einungis með brauðið góða, að næst á eftir mér kom eldri kona. Hún var fremur „galant” í fasi, en klædd í samræmi við rok og rigningu, á kápu með kragann uppbrettan og slæðu yfir hárið, bundna undir hökuna. Hún lagði lítinn pappadisk á færibrettið við kassann. Á diskinum voru tvö lambahjörtu undir plastfilmu. Karlinn sem var á undan mér stóð í einhverju veseni með sitt dót og mér varð litið á hjörtu konunnar. Leit svo á hana og sagði: „Tvö hjörtu. Eru þau ástfangin”? Hún brosti við mér svo elskulega og sagði: „Ég legg þau í kryddlög.”

Dagurinn byrjaði annars í úrhellis rigningu og stormi eins og svo margir bræður hans. Ég ók snemma niður Bankastræti. Átti stefnumót við parið sem nýlega var vígt þar. Það lét vel af sér. Var æðrulaust þótt mikið rigndi. Það minnti mig á Adam. Hinn fyrsta mann. Sem var hvorki karl né kona. Já, eða bæði, kannski. Hann var fyrsti MAÐURINN. Það minnti mig svo aftur á þrasið í saddúkeunum sem stöðugt reyndu að gera Jesúm Krist orðlausan. Um það segir:

„Sama dag komu til hans saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann: „Meistari, Móse segir: „Deyi maður barnlaus, þá skal bróðir hans ganga að eiga konu bróður síns og vekja honum niðja. Hér voru með oss sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó. Hann átti engan niðja og eftirlét því bróður sínum konuna. Eins varð um næsta og þriðja og þá alla sjö. Síðast allra dó konan. Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt hana.”En Jesús svaraði þeim: „Þér villist, því að þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs. Í upprisunni kvænast menn hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himnum…”” (Mt. 22).

Þetta eru svo ágæt mál. Þetta með Guð og Adam og karl og konu. Manninn og rifbeinið. Qohelet segir: „Betri eru tveir en einn… Því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur,…Sömuleiðis ef tveir sofa saman, þá er þeim heitt,…Og ef ráðist er þá geta þeir varist..” Og þrefaldan þráð er eigi auðvelt að slíta.” Þrefaldan þráð? Hjarta mannsins, hjarta konunnar og ástin. Hún er kryddlögur lífsins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.