Við höfum reynt að fara á hverju ári að sjá sýningu blaðaljósmyndara. Hún hefur upp á síðkastið verið í Gerðarsafni, Kópavogi. Því fallega húsi. Á sýningunni er mikið af myndum og myndröðum. Litadýrðin stórkostleg, og svarthvítar með sínum eilífa sjarma. Ásta tók að skoða af ákafa. Ég brá nokkuð öðruvísi við. Fannst myndirnar eiginlega vera of fullkomnar. En vissulega hef ég ekki mikið vit á fréttaljósmyndum.
Eins og fyrri daginn heillaðist ég af myndum Kristins Ingvarssonar og sérlega þeim svart-hvítu. Myndröðin af ungu þingmönnunum vakti athygli. Þær eru einfaldlega allt of góðar. En ég skil að þær eiga að vera svona. Meiri ánægju veittu myndirnar af Matta Jóh. og David Attenborough. Svo ég nefni fleiri, þá vakti Krossfesting andúð mína. Myndin af Árna Johnsen, þar sem hann stendur ferðbúinn í anddyri fangelsis eftir afplánun talaði sterku máli.
Mest var ánægja okkar á neðri hæðinni. Þar er sýning á myndum Magnúsar Ólafssonar (1862-1937). Það var ákaflega ánægjulegt að skoða myndir hans. Að sjálfsögðu eru þær allar svart-hvítar, teknar á árunum 1909 til 1935, að mér sýndist. Hæfni mannsins með birtuna er hrífandi og kemur vel í ljós í mannamyndunum.Sögulega er aldeilis stórkostlegt að skoða Reykjavíkurmyndirnar frá þessum tíma.
Enduðum loks í fallegu kaffistofunni á jarðhæð og fengum kaffi, munúðarlega rjómatertusneið og brauð með eggi. Hvað annað?