The Quiet American

Heyrði einu sinni enskan sjónvarpsmann sem fór um lönd og gerði kynningarþætti, ágæta þætti, meðal annars einn um efnaða búgarðseigendur í Argentínu og tangó. Hann sýndi fólk sem dansaði tangó, þennan ástríðufulla dans sem maður horfir agndofa á og nær ekki alveg tökunum á því hvort hann er dans eða ástríðuathöfn.

Svo reyndi maðurinn að útskýra dansinn, lýsti hreyfingum og sporum hjá svartklæddri ígulfagurri konu og grönnum spengilegum ungum karlmanni. Þetta var flottur dans og mikil innibyrgð orka sem gneistaði af í hreyfingunum. Þangað til maðurinn fór sjálfur að dansa. Stuttur, feitlaginn með ístru og klæddur í pokaleg föt.

En þegar hann lýsti dansinum, fyrr í þættinum, þá komst hann þannig að orði að „ástin væri högg fyrir neðan beltisstað.” Ég var honum gjörsamlega ósammála. Hvernig gat maðurinn látið þetta út úr sér. Í hverju hafði hann lent. „Högg fyrir neðan beltisstað?”
En auðvitað hafa allir hlutir að minnsta kosti tvær hliðar. Vissulega getur ástin bæði veitt fólki vængi og yndi og sturlað það. Við Ásta fórum að sjá „Þögla ameríkumanninn” í kvöld.

Það er mögnuð mynd. Byggð á sögu eftir Graham Greene. Ég las hana tiltölulega ungur að árum. Hún gerist í Vietnam. Og fjallar um ást. Ást sem menn geta drepið fyrir. Og aðalsögupersónan drepur fyrir. Til að fá elskuna sína aftur. Leikin af Michael Caine. Hann bregst ekki. Leikur þarna roskinn blaðamann, enskan, sem leggur ást á unga vietnamska fegurðardís sem leitar manns sem getur séð um hana og fyrir henni. Og vill giftast burt úr landi sínu.

Setning sjónvarpsmannsins, „ást er högg fyrir neðan beltisstað” fær þarna einskonar undirstrikun og staðfestingu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.