Smá útúrdúr

Það var við horngluggann í morgun. Kaffið var óvenju gott. Fyrsti bollinn var drukkinn að mestu án orða. Slydda utan við gluggann. Í maí. Slatti af kosningablöðum á borðinu. Ásta sagði: „Ertu búinn að ákveða hvað þú ætlar að kjósa?” „Já.” „Ætlar þú að breyta til?” „Nei. En Þú?” „Nei. Þetta kom til umræðu í vinnunni í gær. Fólk talaði af miklum ákafa um allt þetta nýja fólk sem býður sig fram og allt þetta góða og fína sem það ætlar að gera fyrir alla. Svo kom að mér.

Ég rifjaði upp fyrir þeim hvernig þetta var hérna áður fyrr. Þá var enginn stöðugleiki. Þá kom verðbólgan eins og andskoti á þriggja mánaða fresti og hækkaði allt. Mjólkin hækkaði alltaf fyrst. Maður vissi ekki hvort peningarnir dygðu fyrir mjólkinni næsta dag. Sagði þeim að þá hafi ég keypt mjólk handa átta manns. Já, og auðvitað allt annað sem þurfti í matinn.

Húsaleigan hækkaði á þriggja mánaða fresti. Bókstaflega allt hækkaði og maður vissi aldrei hvort endar næðu saman. Það var hræðilega erfitt fyrir stórar fjölskyldur. Nú er stöðugleiki og í rauninni eiga langflestir fyrir öllu sem þeir þurfa. Og margir fara til útlanda á hverju ári. Liggja og sleikja sól. Það var aldrei svona áður. Ég sagði mína skoðun og minnti fólkið á hvernig þetta var. Og hvað ég mundi kjósa.”

„Þú ert yndisleg,” sagði ég. „Við skulum fara saman á kjörstað og kjósa stöðugleikann.”
Við lukum kaffinu. Ég rifjaði upp hvernig, í gegnum árin, við hverjar einustu kosningar kom fram fólk sem ætlaði að koma öllum atriðum heimsins í lag. Hamaðist við að níða andstæðingana. Þegar og ef það komst að þá varð ekki neitt úr neinu. Kjörtímabilið nægði því varla til að læra tungumál stjórnmálanna, hvað þá annað. Á mínum aldri heillast maður ekki af yfirborðsmennsku.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.