Tímar meiri alvöru

Minnist þess oft hve barnalegt mér þótti fyrst þegar ég heyrði menn segja að trúin og ritningin gætu verið virk í lífi manna. Samt var ég alinn upp við þá trú sem mamma mín iðkaði og sótti til þjóðkirkjunnar. Hún signdi okkur bræðurna þegar hún klæddi okkur í hrein kot eftir bað og kenndi okkur ýmis vers sem tíðkuðust í uppvexti hennar kynslóðar. Svo komu tímar meiri alvöru.

Við báðum fyrir pabba mínum. Hann stríddi við alkóhólisma og virtist Bakkus alltaf hafa betur þótt sæmilegir tímar kæmu á milli. Um þetta leyti steinhætti ég að taka mark á Guði. Hann virtist aldrei hlusta á mig hvað þá að hann bænheyrði mig. Svo var ég um það bil að verða unglingur um þetta leyti og þá birtast allskyns straumar og flækjur.

Hvort sem nú Guð heyrði bænir mínar eða ekki, eða þá hann bænheyrði mig seinna en fyrr, þá komu þeir tímar að ég sá enga leið út úr þeirri andlegu blindgötu sem ég hafði ratað í og skoraði þá á Guð að gefa sig fram ef hann á annað borð væri einhversstaðar. Og hann gaf sig fram og smámsaman urðu trúin og ritningin virk í lífi mínu.

Las nýlega um bandaríkjamann og japana sem hittust á flugvellinum í Tokíó. Þeir höfðu hist á stríðstímum, 40 árum áður, í helli á Okinawa. Þá hélt bandaríkjamaðurinn á barni sem hafði fengið skot í báða fætur. Japaninn kom fram úr myrkrinu í hellinum og miðaði riffli á bandaríkjamanninn sem sá að hann gat ekkert gert sér til varnar svo að hann lagði barnið niður og tók að þvo sárin á fótum þess.

Undrandi lét japaninn riffilinn síga. Þegar bandaríkjamaðurinn var búinn að hreinsa sárin hneigði hann sig í átt til japanans í þakkarskyni og fór með barnið á herspítala í grennd. Árið 1985 skrifaði bandaríkjamaðurinn lesendabréf til dagblaðs í Tókíó til að þakka hinum óþekkta japanska hermanni fyrir að hlífa sér 40 árum áður. Japaninn las bréfið í blaðinu og sá dagblaðið um að láta þá hittast.

Biblíuversið „Sælir eru miskunnsamir því þeim mun miskunnað verða,” varð virkt í lífi mannanna tveggja. Mt. 5:7

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.