Sígilt og leiftrandi

Straumar sem fara um fólk eru af mismunandi toga. Þegar sagt er straumar er verið að tala um áhrif sem eitt eða annað hefur á fólk. Eitt eða annað. Tek tónlist og texta sem dæmi. Við Ásta hlýddum í gærkvöldi á War Requiem, eftir Benjamín Britten, í Háskólabíói. Það var hrífandi tónlist, hrífandi textar og glæsilegur flutningur. Áhrifin mikilfengleg. Áhrifin.

Textinn við verkið er trúarlegur. Kyrie eleison. Drottinn, miskunna þú oss. Ekki veit ég hvort verkið hefði neinn sérstakan innri tón ef ekki væri textinn. Enda er tónverkið samið við textann sem er eftir Wilfred Owen, enskt ljóðskáld sem, eins og margir góðir höfundar, var nærri óþekktur þegar hann lést. Tveim árum eftir dauða Owens kom út heildarsafn ljóða hans. Á meðal handritanna sem fundust var formáli sem hann hafði skrifað: „Yrkisefni mitt er stríðið og harmur stríðsins…”

Í einu ljóða hans, Futility, („Markleysa”) lýsir hann hugrenningum hermanns sem færir látinn félaga sinn í sólargeislann, í þeirri veiku von að sólin geti grætt sár hans: „Hún sem vekur á vori hvert fræ, / vakti eitt sinn hinn kalda stjörnuleir,- / fær hún ei bært þetta brjóst né limi þá, / blæðandi varma, ljóssins dýru smíð? / Hóf hún manninn til þessa moldu frá? / -Var marklaus sú önn frá fyrstu tíð, / er blundi jarðar brá?” (Þýð. Þorsteinn Valdimarsson)

Fyrsti þáttur Stríðssálumessunnar er bæn um eilífan frið. „Drottinn veit þeim eilífan frið,” þá er hann að tala um alla þá sem fallið hafa í stríði., „og lát þitt eilífa ljós lýsa yfir þeim.” Þarna syngjast á baritón frá Þýskalandi, tenór frá Englandi og sópran frá Rússlandi, ein rödd frá hverju landi stríðsaðilja, kór íslensku óperunnar og unglingakór Söngskólans við Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Ashkenazy’s.

Lokaþátturinn, Libera me, (Frelsa mig) færir hlustandann út í heim angistar og kvíða. Síðasta kvæðið, Strange Meeting, segir frá breskum hermanni sem mætir draug þýsks óvinar, sem síðar kemur í ljós að sá breski hafði drepið daginn áður: „Ég er fjandmaður þinn, sem þú felldir. Hér er dimmt, / félagi´ og vinur, en augun þekkti ég samt, / er þú hvesstir í gær, þegar geir þinn nísti mig; / ég brá geiri við; en hönd mín var köld og treg.” Að lokum syngja hermennirnir saman vögguljóð, bæði handa sjálfum sér og félögum þeirra sem einnig liggja í valnum. „Nú skulum við sofna.”

Um tónlistina kann ég ekki að tala. Hún var stórkostleg, ógnvekjandi og áhrifamikil. Texti og tónar eru afar sterkt skrifuð áskorun til allra manna um að halda frið. Láta sér annt um líf annarra manna. Og okkur ber að hlusta, segir í skrá hljómleikanna sem Árni Heimir Ingólfsson hefur samið. En vel að merkja: Það hefði gert upplifunina miklu áhrifameiri fyrir áskrifendur ef þeim hefði verið send skráin fyrir tónleikana.

Enn og aftur skín boðorð drottins Jesú Krists leiftrandi af kærleika, mannviti og elsku, sígilt í hverri kynslóð: „…og náungann eins og sjálfan þig.”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.