Pólitík á biðilsbuxum

Með hliðsjón af trú minni, sem er huglæg iðkun um sannleika og mannelsku Guðs, hef ég reynt í mörg ár að láta ekki pólitíska umræðu hafa áhrif á daglega tilveru mína. Geri mér þó fulla grein fyrir því að pólitík snýst um fjármagn þjóða, vald yfir því og meðferð. En vald er eitthvað sem fer illa með flest fólk og getur orðið að fíkn og vitað er að fíknir umbreyta fólki í fíkla.

Hef stundum vitnað í eina bóka í safni mínu sem valdist í flokk „best vina”, „Grát ástkæra fósturmold,” eða „CRY, THE BELOVED COUNTRY,” eftir Alan Paton, en þar segir á einum stað: „…og óskaðu ekki eftir valdi yfir nokkrum manni, því að ég á vin, sem kenndi mér, að valdið spillir mönnum”(Bls. 263). Hvað um það. Einu sinni enn hefur íslensk tilvera fyllst af þessu óbilgjarna biðilssuði stjórnmálamannanna. Og eitt vekur athygli umfram annað.

Allir flokkar, hvort sem þeir hafa 40 prósent fylgi eða bara prómill, tala um skatta og skattamál og heita fólki skattalækkunum fái þeir hlutdeild í valdinu sem ákveður skatta. Af þessu má draga ákveðna ályktun. Ef allir stjórnmálaflokkar eru sammála um að það þurfi að lækka skatta, þá blasir við að skattar eru of háir.

Vandamál okkar sem kjósum er þá líklega helst falið í því að skynja hver líklegastur sé til að standa við loforð sín. Og takist okkur að finna það út þá höfum við væntanlega von um betri tíð, lágstétt landsins. Það er því vissara að líta vandlega, bæði til hægri og vinstri, áður en við förum yfir götuna að kjörborðinu og meta reynsluna sem við höfum af stjórnmálamönnum til að standa við orð sín. Þar er allsekki allt sem sýnist.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.