Nú brjótum við brauðið

Dagurinn gær, föstudagurinn langi, varð okkur örlátur. Í margvíslegu tilliti. Það er margt sem maður getur verið þakklátur fyrir ef maður gefur sér næði til að meta það. Til dæmis fyrir lífið. Dagurinn í gær var þannig hjá okkur Ástu. Við vorum þakklát fyrir lífið og öll þessi fínu atriði sem Guð hefur lagt á nægtaborðið okkar. Dagurinn í gær helgaðist og af ritningarorðum.

Í útvarpinu var messa klukkan ellefu sem við hlýddum á. Presturinn, séra Ólafur Oddur, flutti sérlega góða ræðu þar sem kjarninn var tengingin milli föstudagsins langa og páskadags. Dauðans og upprisunnar. Í messunni söng KK þrjú lög og meðal annars lagið „Englar himins grétu í dag,” þar sem segir: „…allt var kyrrt og allt var hljótt / miður dagur varð sem nótt / sorgin bjó sig heiman að / englar himins grétu í dag, í dag.” Bluestónninn í KK á vel við á dögum dapurra hugleiðinga.

Eftir hádegið lögðum við bíl undir fót og ókum austur í Skálholt. Þar var auglýst samverustund í umsjá séra Sigurðar Sigurðssonar. Við vorum dálítið snemma á ferðinni. Læddum okkur inn í kirkjuna en þar stóð þá yfir einkastund lítils hóps fólks, þar sem hjón á góðum aldri tóku við blessun kirkjunnar yfir brúðkaupsafmæli sitt, fimmtíu ára, eða gullbrúðkaup. Nokkur hópur vina og afkomenda var með þeim og presturinn annaðist þjónustuna.

Klukkan fjögur hófst svo samverustundin. Ásta kveikti á kertum. Stemningin var hátíðleg. Lotning og virðing. Unglingakór annaðist sönginn. Söng meðal annars Ave Verum og Stabat Mater, sem fjallar um ákafa örvæntingu og sorg Maríu móður Jesú þar sem hún stóð álengdar og fylgdist með þegar sonur hennar var negldur á krossinn.

Messa í Skálholti

Presturinn las síðan úr Jóhannesarguðspjalli, köflunum 18 og 19, og á milli leskaflanna voru sungnir sálmar. Loks fóru tveir prestar með víxlbæn. Guðsorðið í tali og tónum féll vel að trúarlegri stemningu dagsins. Endað með Faðir vorinu. Lítil telpa, sjö eða átta ára, sem sat fyrir aftan okkur tók undir, af djörfung og öryggi. Blessun fylgdi rödd hennar.

Þegar við komum út í bíl að stundinni lokinni tók Ásta upp nestispoka, kaffibrúsa og hrökkbrauð og sagði: „Nú brjótum við brauðið.”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.