Fræull

Veðurhryðjurnar í morgun, árla, hvolfdust yfir byggðina hérna við snjólínu og tilveruna við horngluggann. Nærliggjandi húsaraðir hurfu í vatnsmestu gusunum. Stormurinn bókstaflega slengdi regninu sem þeyttist umhverfis blokkina. Kom úr suðaustri. Byggingarkranarnir á nærliggjandi svæði lensuðu máttvana. Fátt fólk var utanbíla.

Við ræddum þennan veðurham, við Ásta, og virtist okkur vorið enn vera langt undan. Vorið, sem hugurinn hafði gert sér dælt við og vonað að birtist um þessar mundir þótt ekki væri nema dag og dag. En einhvern veginn er eins og sólina vanti í myndina til þess að sálin láti lyftast. Ég tók að rifja upp ljósmynd sem ég tók eitt vorið út um glugga heima í Bugðutanga. Síðan eru allnokkur ár.

Við höfðum gróðursett við þennan glugga eina staka viðju á fyrstu árunum okkar þar. Hún var orðin fjórir til fimm metrar á hæð þegar við fluttum burt. Dag einn, um vor, tók ég eftir því að mikill brumhnappur var þakinn fræull sem beið eftir því að vinsamleg gola bæri sig á milli húsagarða. Þetta var klasi. Undrafagur og töfrandi. Ég naut þess að horfa á hann.

Fræull

Þegar Ásta gat ekki með nokkru móti munað eftir myndunum ákvað ég að sækja þær og sýna henni. Þetta var raunar sjö mynda röð, tekin í gegnum rúðuna í glugganum á vinnuherberginu mínu í þarna Bugðutanga. Það var ekki djúpt á myndunum. Þær voru í myndavasa í einni skúffunni. Og heilla mig alltaf jafn mikið. Þegar ég kom aftur inn í stofu og að hornglugganum, ánægður með hve fljótt ég hafði fundið myndirnar, fattaði ég að Ásta er í Danmörku.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.