Vitsmunir og viska

Stundum heyrist af mönnum sem búa yfir meiri visku en almennt gerist. Orðið viska hefur þó, eins og flest önnur orð, fleiri en eina merkingu og fer það gjarnan eftir málsvæði eða fagi eða einhverjum ramma sem orðin eru notuð innan. Við lestur trúarbóka, speki og eða viskurita, fá þessi orð um visku og speki gjarnan aðra merkingu en þau hafa í daglegu tali.

Þegar svo kemur að orði eins og vitringur er líklegt að margir hugsi til jólanna og náunganna frá austurlöndum sem fylgdu spádómsbókum sínum, ótrauðir, og fundu það sem bækurnar spáðu. Víst er um það að í gegnum tíðina hafa verið til menn sem með skarpri hugsun og íhugun komust að öðruvísi niðurstöðu en almenn var.

Sírak segir um slíka: „Sá sem spekina höndlar auðnast vegsemd, og blessun Drottins fylgir henni. …og Drottinn elskar þá sem henni unna.” (Sr. 4:13.) Og hvernig skyldi nú blessun spekinnar verka í lífi þeirra sem hana höndla? Nýlega rak á fjörur frásaga af einum slíkum, kínverskum. Hann var uppi í fornöld og átti einn son og einn hest.

Dag nokkurn braust hesturinn út úr réttinni og hljóp til fjalla. „Mikið ólán,” sagði nágranninn. „Hvernig getur þú verið viss um það?” spurði gamli vitringurinn. Næsta dag kom hesturinn til baka og hafði nú tíu aðra hesta með sér. „Mikið lán,” sagði nágranninn. „Hvernig getur þú verið viss um það,” spurði sá gamli.

Tveim dögum síðar kastaði einn villtu hestanna syni gamla mannsins af baki og fótbrotnaði hann. „Mikið ólán,” sagði nágranninn. „Hvernig getur þú verið viss um það?” spurði sá gamli. Daginn eftir kom hópur óvina í þorpið og tóku þeir til fanga alla stælta og sterka unga menn. Sonur gamla mannsins var skilinn eftir vegna fótbrotsins. Nágranninn sagði ekkert.

Skyldu ekki margir eiga sér minningu um atvik sem í fyrstu virtist mótlæti en reyndist síðar vera blessun. Edvin Markham orðaði þetta svo: „Hver sem fellur úr hægri hendi Guðs er gripinn með þeirri vinstri.”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.