Aftur til bókarinnar

Bækur hafa verið mér góðar. Þær hafa reynst mér vel í flestum tilbrigðum hugarástands míns. Eins og þau geta verið margvísleg í óstýrilátri sál. Í bókum mætir maður fólki af öllum þjóðum veraldar. Af öllum tímum mannkynssögunnar. Háu fólki og lágu, breiðu fólki og mjóu. Í andlegri og líkamlegri merkingu. Og lífsreynslu þess.

Það er mjög við hæfi að bera lof á þýðendur bóka. Vinna þeirra er ómetanleg fyrir okkur sem fákunnandi erum í tungumálum. Stundum hefur mig langað, eftir lestur bóka, að heimsækja þýðendurna, taka í hönd þeirra og þakka þeim fyrir. En af því að ég óframfærinn hefur aldrei orðið af því. Oft hef ég strokið bók mjúklega og hugsað fallega til þýðandans.

Margar ljóðaþýðingar eru með þeim bókmenntum sem mest hafa kætt hjarta mitt. Ísland hefur átt afburða ljóðaþýðendur. Svo snjallir voru sumir þeirra að manni fannst þýðingin dýpri og fegurri en ljóðið á frummálinu. Ekki er ég að gera því skóna að ég geti lesið ljóð á mörgum tungumálum og gert samanburð. Nei. Það er ekki svo gott.

En stundum er dýrum orðunum raðað svo haganlega saman, á íslensku, að hugsunin sem í þeim býr vekur unaðarbylgjur í sálinni. Þá skynjar lesandinn einhverskonar sannleika, eða hreinan tón, sem ósegjanlegur er. Það er þá sem maður verður barmafullur af þakklæti

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.