Það er ekki nóg að brýna raustina

Um miðjan dag í gær var sendur út í sjónvarpi fyrirspurnartími frá Alþingi. Í gærkvöldi svo útsending frá Nasa, borgarafundur þar sem fulltrúar flokkanna í Reykjavík norður sat fyrir svörum. Ég fylgdist með báðum þessum útsendingum.

Aðferðarfræði Bjarna Ben og Þorgerðar Katrínar undruðu mig verulega. Kokhraust og hávær vörpuðu þau fram spurningum og yfirlýsingum eins og þau væru fólkið sem vissi allt best, kynni allt best og væri í öllum atriðum langbest. Flokkur þeirra sá besti, stefnuskrá hans sú besta og ferill og saga óaðfinnanleg.

Það var nánast sorglegt að fylgjast með þeim, formanni og varaformanni flokks sem er með buxurnar á hælunum og hefur brugðist kjósendum sínum til margra ára. Hafi ég gert mér einhverja minnstu von um að vitsmunir þeirra og lífsspeki segðu þeim að nú væru tímar lítillætis og hógværðar góður mælikvarði á sjálfsgagnrýni, þá varð ég fyrir vonbrigðum. Bilið milli mín og þeirra breikkaði enn. Það er ekki nóg að brýna raustina.

Um borgarafundinn er ekki margt að segja. Kannski er þessi aðferð ekki nógu góð. Það var eiginlega ekkert sagt sem jók áhuga minn á stjórnmálaflokkunum né heldur frambjóðendum þeirra. Fékk þó snert af samúð með Þráni Bertelssyni um tíma. Illugi kaus að brýna raustina eins og fyrirliðar flokks hans fyrr um daginn. Það er ekki nóg að brýna raustina.

Skoðanakönnunin sem birt var í gær sem sýndi þessa miklu aukningu fylgis Samfylkingar vakti með mér þá spurningu hvort ástæðan væri fremur sú að Jóhanna Sigurðar ætti svona miklum vinsældum að fagna eða brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar úr forystuliðinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.