Þú gerir ekki háar kröfur

Þetta var skömmu eftir hádegi í gær. Ég hafði áætlað tíma til að heimsækja frænda frú Ástu á Dvalarheimilið. Hann sat frammá og glímdi við krossgátu. Ég settist á rúmið við hið hans. Við ræddum eitt og annað. Hann var glaður í bragði og rifjaði upp sitt hvað frá fyrri dögum. Skellihló að sumum atvikum. Svo kom herbergisfélagi hans inn.

Herbergisfélaginn er sterklegur maður. Tekur i vörina. „Heitir þú Gunnar?“ spurði hann allhátt. „Nú, ég hélt þú hétir Gunnar. Við höfum sést er það ekki?“ „Jú, við höfum sést.“ „Það er meira helvítið hvað maður gleymir mannanöfnum, já og ýmsu öðru.“ „Það er nú svo sem gangur lífsins, er það ekki?“ sagði ég næst. Frændi Ástu lagði ekkert til málanna lengur.

Herbergisfélaginn hélt áfram. „Jú, þetta slitnar allt og eyðist. Það væri nú bara best að losna úr þessum hörmungarheimi. Ekki hughreystir pólitíkin mann. Allt komið til Helvítis.“ Hann lagðist út af í rúmið sitt. Tóbaksrönd var í öðru munnvikinu. „Ertu ekki ánægður með lífið?“ lagði ég í að segja. „Ánægður, hvern andskotann ætti ég að vera ánægður með. Ert þú ánægður með lífið.“ Hann hvessti á mig augun.

„Já, eiginlega.“ svaraði ég. „Ertu þá efnaður maður?“ spurði hann næst. „Nei. Ég á enga peninga,“ svaraði ég. „Áttu þá ekki skuldir. Nóg á ég af þeim?“ hélt hann áfram. „Jú, ég á dálítið af þeim.“ „Og áttu fyrir afborgunum af þeim?“ spurði hann enn. „Það hangir í því, ennþá,“ svaraði ég. „Og yfir hverju ertu þá svona hamingjusamur.“ „Já, ég er lifandi. Ég hugsa. Konan mín umber mig enn. Og svo hef ekki fleiri verki en aðrir karlar á mínum aldri..“ „Þú gerir ekki háar kröfur,“ sagði herbergisfélaginn og snéri sér til veggjar.

Skömmu síðar var ég við útför í kirkju. Maður verður alltaf dálítið heimspekilega sinnaður við slíkar athafnir. Veltir fyrir sér hégóma og heimsku tilverunnar. „Allt er hégómi,“ segir á bók, „…og eftirsókn eftir vindi.“ Það má til sannsvegar færa.

Að athöfn lokinni, lék vindur um klettaborgina sem kirkjan stendur á. Vindur sem „gengur til suðurs og snýr sér til norðurs og snýr sér og snýr sér.“ Snýr sér og snýr sér. Og Hvítá rennur í sjóinn en sjórinn verður aldrei fullur og þangað sem Hvítá rennur mun hún ávallt halda áfram að renna. Og ekkert er nýtt undir sólinni.

3 svör við “Þú gerir ekki háar kröfur”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.