Sautján kræklur og kosningar til Alþingis

Fyrstu hríslurnar sem við Ásta keyptum til að gróðursetja voru kræklur. Það var í Skógræktarstöðinni í Fossvogi. Þetta var um haust. Allar flottar og stoltar hríslur voru uppseldar og kræklurnar sem eftir voru stóð ekki til að selja. En okkur leist vel á þær. Fengum þær eftir ákafa beiðni. Fyrir fáeinar krónur.

Við fluttum kræklurnar upp í Borgarfjörð á lítilli kerru. Það var á köldum októberdegi. Til að hlífa þeim á leiðinni settum við stikur í horn kerrunnar og girtum með hessían striga í kring. Ókum fremur rólega upp eftir. Næsta dag fengum við dverggröfu til að grafa holur í grjótmelinn við landamörk. Því næst hnupluðum við lítilsháttar af góðri mold úr barði í nálægri sveit. Fengum svo húsdýraáburð hjá næsta bónda. Kerran var lykilmál.

Á morgni dagsins sem við gróðursettum var suðaustan slagveður. Stormur og mikil rigning. Naumast stætt. Við hófum samt starfið. Settum hrossatað í botn holanna, þvínæst mold, þá kræklu og loks mold og þjöppuðum vel að. Stráðum fáeinum blákornum á yfirborðið að lokum.

Stundum feykti stormurinn okkur til. Vatnið rann niður í hálsmálið á okkur þótt við værum í regngöllum með hettum. Nágranni gekk hjá ásamt maka. Hann hrópaði til okkar: „Þið veljið veðrið.“ Við skellihlógum og sögðum að hamingjan væri fólgin í storminum.

Það var satt. Við vorum ákaflega hamingjusöm með kræklurnar okkar, sautján stykki, minna en metri á hæð. Og við ræddum við þær og sögðum þeim ýmislegt um lífsskoðanir okkar. Meðal annars það að við hefðum svipuð viðhorf til hríslna og manna. Allir ættu að eiga sama rétt á að koma rótum sínum í þokkalegan jarðveg og spreyta sig á lífinu. Og sjálfsagt væri að veita þeim skilyrði og þá aðhlynningu sem þau þurfa til að ná sér á strik.

Kræklurnar létu sér vel líka spjall okkar. Og þótt við yrðum að afsala okkur spildunni þrem árum síðar, þá heimsækjum við þær á hverju ári. Þær hafa dafnað vel. Og mesta fegurðin við þær er að þær falla svo vel að villtu birkinu sem vex í nágrenni þeirra. Síður að þessum teinréttu útvöldu.

Mér varð hugsað til kræklanna í tengslum við komandi kosningar til Alþingis Íslendinga. Ég er ákveðinn í því að kjósa það fólk, þann flokk, sem gefur trúverðug fyrirheit, loforð, um að láta sér jafn annt um fólk sem vanbúnara er til að takast á við lífið og samkeppnina, og yfirganginn sem þeir „sterku“ sýna því.

2 svör við “Sautján kræklur og kosningar til Alþingis”

  1. Það sem Glúmur kaus að sleppa í athugasemd sinni:

    ,,…um að láta sér jafn annt um fólk sem vanbúnara er til að takast á við lífið og samkeppnina, og yfirganginn sem þeir „sterku“ sýna því.“

    Það hlýtur að flokkast undir Framsóknarflokksheilkennið að tengja þessi orð við löngu selda landspildu.

  2. „Ég er ákveðinn í því að kjósa það fólk, þann flokk, sem gefur trúverðug fyrirheit, loforð,“!

    Getur verið að spildan sé nálægt Borgarnesi?!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.