Fyrstu hríslurnar sem við Ásta keyptum til að gróðursetja voru kræklur. Það var í Skógræktarstöðinni í Fossvogi. Þetta var um haust. Allar flottar og stoltar hríslur voru uppseldar og kræklurnar sem eftir voru stóð ekki til að selja. En okkur leist vel á þær. Fengum þær eftir ákafa beiðni. Fyrir fáeinar krónur.
Við fluttum kræklurnar upp í Borgarfjörð á lítilli kerru. Það var á köldum októberdegi. Til að hlífa þeim á leiðinni settum við stikur í horn kerrunnar og girtum með hessían striga í kring. Ókum fremur rólega upp eftir. Næsta dag fengum við dverggröfu til að grafa holur í grjótmelinn við landamörk. Því næst hnupluðum við lítilsháttar af góðri mold úr barði í nálægri sveit. Fengum svo húsdýraáburð hjá næsta bónda. Kerran var lykilmál.
Á morgni dagsins sem við gróðursettum var suðaustan slagveður. Stormur og mikil rigning. Naumast stætt. Við hófum samt starfið. Settum hrossatað í botn holanna, þvínæst mold, þá kræklu og loks mold og þjöppuðum vel að. Stráðum fáeinum blákornum á yfirborðið að lokum.
Stundum feykti stormurinn okkur til. Vatnið rann niður í hálsmálið á okkur þótt við værum í regngöllum með hettum. Nágranni gekk hjá ásamt maka. Hann hrópaði til okkar: „Þið veljið veðrið.“ Við skellihlógum og sögðum að hamingjan væri fólgin í storminum.
Það var satt. Við vorum ákaflega hamingjusöm með kræklurnar okkar, sautján stykki, minna en metri á hæð. Og við ræddum við þær og sögðum þeim ýmislegt um lífsskoðanir okkar. Meðal annars það að við hefðum svipuð viðhorf til hríslna og manna. Allir ættu að eiga sama rétt á að koma rótum sínum í þokkalegan jarðveg og spreyta sig á lífinu. Og sjálfsagt væri að veita þeim skilyrði og þá aðhlynningu sem þau þurfa til að ná sér á strik.
Kræklurnar létu sér vel líka spjall okkar. Og þótt við yrðum að afsala okkur spildunni þrem árum síðar, þá heimsækjum við þær á hverju ári. Þær hafa dafnað vel. Og mesta fegurðin við þær er að þær falla svo vel að villtu birkinu sem vex í nágrenni þeirra. Síður að þessum teinréttu útvöldu.
Mér varð hugsað til kræklanna í tengslum við komandi kosningar til Alþingis Íslendinga. Ég er ákveðinn í því að kjósa það fólk, þann flokk, sem gefur trúverðug fyrirheit, loforð, um að láta sér jafn annt um fólk sem vanbúnara er til að takast á við lífið og samkeppnina, og yfirganginn sem þeir „sterku“ sýna því.
Það sem Glúmur kaus að sleppa í athugasemd sinni:
,,…um að láta sér jafn annt um fólk sem vanbúnara er til að takast á við lífið og samkeppnina, og yfirganginn sem þeir „sterku“ sýna því.“
Það hlýtur að flokkast undir Framsóknarflokksheilkennið að tengja þessi orð við löngu selda landspildu.
„Ég er ákveðinn í því að kjósa það fólk, þann flokk, sem gefur trúverðug fyrirheit, loforð,“!
Getur verið að spildan sé nálægt Borgarnesi?!